Næstkomandi laugardag, 25. nóvember, hefst sextán daga alþjóðlegt átak gegn kynbundnu ofbeldi. Engin tilviljun er að átakið hefst 25. nóvember því þessi dagur er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gagnvart konum. Sextán daga átakinu, sem hefur það að markmiði að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis, lýkur 10. desember nk., á alþjóðlega mannréttindadeginum.
16 daga átak hefur frá árinu 1991 unnið að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Hópar og samtök um allan heim nýta átakið til að krefjast aðstoðar og stuðnings til handa fórnarlömbum ofbeldis, til að styrkja forvarnastarf og þrýsta á um breytingar á löggjöf til að bæta réttarstöðu þolenda. Þá hefur átakið verið nýtt til að stuðla að því alþjóðlegum mannréttindareglum sé beitt til að vinna gegn kynbundu ofbeldi sem mannréttindabroti, heilbrigðisvandamáli og ógn við mannfrelsi og frið um allan heim.
Hér á Akureyri verða ýmsar uppákomur þá sextán daga sem átakið stendur yfir:
Laugardagur 25. nóvember kl. 17:00. Ljósaganga frá Akureyrarkirkju á Ráðhústorg. Táknræn ganga um frið og samstöðu.
Miðvikudagur 29. nóvember kl. 12:00. Kynbundin og kynferðisleg áreitni á vinnumarkaði – kynbundinn launamunur – Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands flytur hádegisfyrirlestur í anddyri Borga við Norðurslóð.
Mánudagur 4. desember kl. 10:00-12:00. Byggjum brýr – brjótum múra – samvinna í heimilisofbeldismálum á Norðurlandi eystra. Málþing í anddyri Borga við Norðurslóð.
Fimmtudagur 7. desember kl. 12:00-13:00. Kynferðisofbeldi í formi myndbirtinga. Hildur Friðriksdóttir, starfsmaður á bókasafni VMA og verkefnisstjóri erlendra samskipta við skólann, flytur hádegisfyrirlestur í VMA.
Fimmtudagur 7. desember kl. 18:00-21:00. Opið hús hjá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Kynning á starfsemi Aflsins, erindi og tónlistaratriði.
Laugardagur 9. desember kl. 11:00-12:00. Hinsegin Norðurland – heimilisofbeldi og hinsegin fólk. Amtsbókasafnið á Akureyri.
Laugardagur 9. desember kl. 13:00-17:00. Bréf til bjargar lífi – bréfmaraþon Amnesty International. Amtsbókasafnið á Akureyri og Penninn Eymundsson.
—–
UMMÆLI