Akureyringar hafa tekið vel í Hopp: „Ánægjulegt að sjá hversu margir af eldri kynslóðinni eru farnir að nota skúturnar“

Akureyringar hafa tekið vel í Hopp: „Ánægjulegt að sjá hversu margir af eldri kynslóðinni eru farnir að nota skúturnar“

Þanni 15. apríl síðastliðinn opnaði Hopp fyrstu rafskútuleiguna á Akureyri. Síðan þá hafa Akureyringar og ferðamenn verið duglegir við að nýta sér nýja ferðamátann. Axel A. Jensen, rekstrarstjóri Hopp á Akureyri segir að starfsemin hafi farið vel af stað.

„Akureyringar og ferðamenn hafa tekið vel í þennan nýja ferðamáta og fjölmargir sem nota skúturnar oft í viku til og frá vinnu,“ segir Axel í spjalli við Kaffið.is.

Hann segir að þrátt fyrir að Akureyringar hafi almennt tekið vel í rafskúturnar þá finnist alltaf einhverjir sem séu skeptískir eða á móti slíkum nýjungum.

„Ég held að skúturnar hafi samt náð að komast inn fyrir skrápinn hjá flestum sem voru í vafa til að byrja með en auðvitað er það þannig að það verða alltaf einhverjir sem ekki eru hrifnir og þannig er það með allan rekstur. Svona til gamans þá er mjög ánægjulegt að sjá hversu margir af eldri kynslóðinni eru farnir að nota skúturnar sem fararmáta og eru því búnir að átta sig á að þær eru ekki bara vistvænn og hagkvæmur ferðamáti heldur líka hin besta skemmtun.“

65 rafskútur eru nú á Akureyri sem hægt er að leigja í gegnum smáforrit á snjallsímum. Hámarkshraði rafskútanna er 25km/klst og þjónustusvæði Hopp nær yfir alla byggð innan bæjarmarka Akureyrar.

Einhver umræða hefur myndast um að banna rafskútur á ákveðnum tímum um helgar í Reykjavík vegna fjölda slysa sem hafa orðið þegar fólk keyrir skúturnar undir áhrifum áfengis. Axel segir að á Akureyri hafi orðið einhver slys en þó hafi gengið vonum framar.

„Auðvitað eins og gengur og gerist hvort sem er á reiðhjólum eða einka skútum þá eru alltaf einhverjir pústrar og skrámur en það hefur gengið vonum framar. Flestir Akureyringar hafa gengið vel um skúturnar og fyrir það erum við mjög þakklát,“ segir Axel.

Hann vill þó minna fólk á að fara eftir settum reglum. „Það eru alltaf einhverjir sem virðast þurfa að gera hluti sem skúturnar eru ekki hannaðar fyrir eins og til dæmis að prjóna og stökkva sem er miður þar sem þessi hegðun kallar á skemmdir og mikið viðhald. Eins er allt of mikið um að tveir séu saman á skútu sem eykur slysahættu til muna.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó