NTC

Mikið fjör á Náttúrubarnahátíð

Mikið fjör á Náttúrubarnahátíð

Náttúrubarnahátíð á Ströndum var haldin með pompi og prakt núna helgina 9.-11. júlí á Sauðfjársetrinu í Sævangi rétt utan við Hólmavík. Metaðsókn var að hátíðinni í ár, en þetta er í fimmta skipti sem hún er haldin. Það er Náttúrubarnaskólinn sem stendur fyrir hátíðinni, en
hann stendur fyrir fjölbreyttum námskeiðum yfir sumartímann sem miða að því að fræða börn á öllum aldri um ólíkar hliðar náttúrunnar.

Hátíðin er í anda skólans og einkennist af útivist, náttúruskoðun, fróðleik og fjöri. Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur er skipuleggjandi Náttúrubarnahátíðarinnar og er hæstánægð með helgina. „Þetta gekk bara eins og í sögu. Veðrið var æðislegt, mætingin var afbragðs góð og
skemmtiatriðin frábær,“ segir Dagrún, en hún áætlar að rúmlega 300 manns hafi sótt hátíðina í ár.

Náttúrubarnahátíðin myndi seint teljast venjuleg hátíð. „Þetta er auðvitað mjög óhefðbundin útihátíð. Á Náttúrubarnahátíðinni snýst allt um að vera úti í náttúrunni og dagskráin miðar að því að börn og fullorðnir geti leikið sér saman og skapað skemmtilegar minningar,“ segi
Dagrún. „Ég trúi því líka að þegar fólk þekkir náttúruna betur beri það meiri virðingu fyrir henni og gangi þar af leiðandi betur um hana,“ bætir Dagrún við.

Dagskráin var fjölbreytt, m.a. fuglaskoðun og fjöruplokk, tónleikar, töframaður, náttúrusmiðjur með Þykjó og Arfistanum, eldsmiðja, núvitundarævintýri og jóga, Benedikt búálfur og Dídí og ýmislegt fleira. „Þetta var allt vel sótt og gekk ótrúlega vel, frábært listafólk sem tók þátt í þessu með okkur. Gunni og Felix héldu svo uppi stuðinu á laugardagskvöldinu, það var algjör snilld. Annars var þetta allt ótrúlega skemmtilegt,“ segir Dagrún.

„Eftir svona helgi er manni þakklæti efst í huga, það eru svo margir sem koma að svona hátíð,
bæði í undirbúninginum og á hátíðinni sjálfri. Styrktaraðilarnir eiga auðvitað miklar þakkir skyldar og svo fáum við líka bestu gestina, það er bara þannig,“ segir Dagrún hress.

Það er ýmislegt spennandi á döfinni hjá Náttúrubarnaskólanum og Dagrún segist strax vera farin að hlakka til næstu hátíðar „Það er ekki annað hægt, við vonumst til að sjá ykkur þá,“ segir Dagrún að lokum.

Frétt Trölli.is. Á vef Trölla má finna fleiri myndir frá hátíðinni.

Sambíó

UMMÆLI