Þórunn Egilsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, er látin 56 ára að aldri eftir baráttu við brjóstakrabbamein. Þórunn lést í gærkvöldi á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Þórunn sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn frá árin 2013. Hún gegndi formennsku þingflokksins árin 2015,2016 og 2018. Hún sat sem 2. varaforseti Alþingis 2015 til 2016 og sem 1. varaforseti Alþingis árin 2016 til 2017.
Í byrjun árs 2019 greindist hún með brjóstakrabbamein og gekk í gegnum stranga meðferð. Hún tók sér þá hlé frá þingstörfum vegna þessa en sneri aftur á síðasta ári þegar meinið var horfið. Í lok síðasta árs fór það aftur að segja til sín og Þórunn greindi frá því í janúar að hún myndi ekki bjóða sig fram aftur til Alþingis.
Þórunn fæddist þann 23. nóvember 1964 í Reykjavík. Hún skilur eftir sig eiginmann sinn, Friðbjörn Hauk Guðmundsson, og þrjú börn; Kristjönu Louise, Guðmund og Heklu Karen.
UMMÆLI