Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa á Akureyri, hefur ákveðið að segja sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir Miðflokkinn. Þetta kemur fram á vef Viljans.
Hólmgeir var stofnfélagi í Miðflokknum og hefur tekið ríkan þátt í starfi flokksins frá upphafi. Hann hefur undanfarið verið formaður uppstillingarnefndar Miðflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi kosningar. Samkvæmt fréttastofu Viljans hefur verið tekist hart á um mögulega frambjóðendur í næstu sætum fyrir neðan Sigmund Davíð. Í síðustu kosningum skipaði Anna Kolbrún Árnadóttir annað sætið og komst þar með á þing.
Í samtali við mbl.is segir Hólmgeir að það hafi verið ákveðnir hlutir í vinnubrögðum sem samrýmdust ekki hans gildum og viðhorfum.
„Það sem vó þungt er að það leit út fyrir að horft yrði framhjá sterkum og reynslumiklum konum,“ segir Hólmgeir í samtali við mbl.is og kýs að tjá sig ekki frekar um málið.
Uppfært:
Hólmgeir tjáði sig um umfjöllun fjölmiðla um málið í athugasemd á Facebook-síðu Kaffið.is. „Það er gaman að sjá að fjölmiðlar keppast við að birta texta úr trúnaðarbréfi mínu til flokksystkina. Svo því sé haldið til haga þá var ég ekki að segja mig úr flokknum og gleðst nú yfir því að NA kjördæmi var að birta lista sinn þar sem okkar öfluga þingkona Anna Kolbrún Árnadóttir skipar 2. sæti listans á eftir formanninum,“ skrifar Hólmgeir.
Sjá einnig: Framboðslisti Miðflokksins í Norðausturkjördæmi samþykktur
Lesa má umfjöllun Viljans í heild sinni með því að smella hér.
UMMÆLI