Tónlistarmennirnir og Akureyringarnir Heimir Björnsson og Sigurður Kristinn Sigtryggsson hafa nýverið tekið upp þráðinn og samið tónlist saman á nýjan leik. Heimir og Siggi byrjuðu fyrst að gera tónlist saman um aldamótin og hafa verið saman í hljómsveitum á borð við Skytturnar og Fræ. Nú hafa þeir gefið út tvö lög undir nafninu Offbít og það er plata á leiðinni.
„Við höfum raunar alltaf verið að gera tónlist saman, með hléum. Við byrjuðum að gera saman tónlist um aldamótin, líklega 1999. En ég man það ekki alveg nákvæmlega. Síðan þá höfum við alltaf haldið sambandi og gert saman tónlist þegar það hefur verið hægt. Siggi bjó á tímabili í London svo við gátum lítið gert. En frá því árið 2019 þá höfum við báðir búið á höfuðborgarsvæðinu og tókum upp þráðinn,“ segir Heimir í spjalli við Kaffið.
„Við erum bara að gera það sem okkur langar og það er dásamlegt á sinn hátt“
Lögin Stofustáss og Hver ert þú? eru komin á streymisveitur. Hver ert þú? er lýst sem grípandi sálarpoppi og lagið fjallar um tilfinningakokteilinn sem fylgir því þegar fólkið verður skotið í öðrum. Einhverskonar blanda af spennu, efa og von sem skapar ómælda gleði með dass af stressi og sjálfsefa. Stofustáss er fyrsta lagið sem félagarnir gáfu út sem Offbít og lagið fékk góðar undirtektir. Heimir segir að það sé meira á leiðinni.
„Við ætlum að klára plötuna okkar. Við eigum helling af grunnum og svo lögum sem eru mjög langt komin. En eftir að við gáfum út Stofustáss og Hver ert þú? langar okkur smá að halda áfram á þeirri vegferð. Restin af plötunni er í aðeins öðruvísi gír þar sem ég var að skrifa um aðeins þyngri hluti. Að minnsta kosti í nokkrum laganna. En við náum ábyggilega að pússla þessu saman í góða heild. Kannski að við bætum við 2 til 3 lögum til að brúa bilið.“
Eins og áður spila textarnir hans Heimis stórt hlutverk í tónlistinni og eru persónlegir og áreynslulausir. Andrúmsloftið er afslappað og tónlistin dreymandi, nostalgísk og grípandi. Offbít sækir innblástur víða, heyra má, meðal annars, áhrif De La Soul, Velvet Underground og Motown enda leitast þeir við í tónlistarsköpun sinni að tvinna saman ólíkar stefnur á áhugaverðan og frumlegan hátt. Heimir segir að tónlist Offbít sé mögulega í ætt við það sem þeir gerðu með Fræ en að frá hans hlið séu þeir að gera allt aðra hluti.
„Þegar við byrjuðum þá var ekkert plan. Nema bara að finna einhvern flöt þar sem við myndum mætast. Það er textarnir mínir og tónlistin hjá Sigga. En síðan þá hefur þetta tekið nokkra kollhnísa og U-beyjur. Í raun erum við bara að leyfa undirmeðvitundinni að ráða. Siggi kemur með grunn og ég skrifa við það. Síðan fer þetta í eitthvað ferli sem við ráðum þannig sé engu um. Við bara leyfum tónlistinni að ráða. Það er engin pressa á að gera eitthvað. Það er enginn að bíða eftir neinu frá okkur. Við erum bara að gera það sem okkur langar og það er dásamlegt á sinn hátt. Okkur líður mjög vel með það sem við erum að gera og ég held það heyrist í tónlistinni,“ segir Heimir.
Þykir ofboðslega vænt um alla textana
Heimir og Siggi hafa fengið aðstoð frá þekktu tónlistarfólki á borð við Steingrím Karl Teague úr Moses Hightower og Lovísu Elísabetu Sigrúnardóttir, betur þekkt sem Lay Low, við gerð laga á plötunni. Heimir segir að þeir séu spenntir fyrir því að klára plötuna og deila henni.
„Það fylgir því einhver önnur tilfinning þegar maður er ekki að gera tónlist til að meika það, heldur bara til að gera hana. Manni þykir meira vænt um hana. Ég man alveg áður þá var maður alltaf með annað augað á að allir þyrftu að fíla það sem maður var að gera. Núna er það bara aukaatriði. Að sjálfsögðu er það gaman en í grunninn er ég að skrifa út frá mjög eigingjörnum forsendum og tónlistin tekur mið af því. Það er kannski það sem er öðruvísi núna en fyrir 15 árum þegar við gáfum út Fræ plötuna. Í raun eru bara tvö lög á Fræ plötunni sem mér þykir ofboðslega vænt um textalega séð. En fram til þessa þykir mér ofboðslega vænt um alla textana í þessu Offbít verkefni.“
Sjá einnig: Heimir gefur út textann við Örkin hans nóa
Fullt að gera í tónlistinni
Eins og áður segir hafa Sigurður og Heimir unnið saman að fjölbreyttum tónlistar verkefnum. Fyrst með Skyttunum frá Akureyri í kringum aldamótin þegar Skytturnar gáfu út plöturnar SP og Illgresið. Platan Illgresið er talin ein af bestu íslensku rapp plötum sögunnar og hefur öðlast einskonar cult-status í íslenskri tónlistarmenningu.
Síðar unnu þeir saman í hljómsveitinni Fræ og gáfu út plötuna Eyðileggðu þig smá árið 2006. Fræ leitaðist við að brúa bil popp og rapp tónlistar og gaf út meðal annars lagið Freðinn fáviti sem naut mikilla vinsælda. Sigurður bjó í London í níu ár þar sem hann pródúseraði lög fyrir Grime listamenn eins og Skepta, Ghetts, Bashy og Giggs. Smáskífa hans með Skepta náði 31. sæti breska vinsældarlistans árið 2013. Hann hefur pródúserað lög fyrir popp listamenn eins og Zara Larsson, J-Pop sveitina Arashi og fjölmarga aðra. Á íslandi pródúseraði hann m.a. lagið Ást sem endist með Páli Óskari sem naut mikilla vinsælda 2015.
Heimir gaf út plötuna George Orwell undir listamannsnafninu Heimir Rappari 2016 og var hluti af tónleikabandi Kött Grá Pje. Heimir er eitt best geymda leyndarmál íslenskrar dægurlaga textagerðar en textar hans með Skyttunum og Fræ hafa haft mótandi áhrif á nýja kynslóð rapptexta á Íslandi.
Hlustaðu á lögin Hver ert þú? og Stofustáss í spilaranum hér að neðan:
UMMÆLI