Stóri Hoppukastalinn sem hefur verið staddur á bakvið Skautahöllina á Akureyri tókst á loft í dag á meðan að börn voru þar að leik. Mikill viðbúnaður er á staðnum og hópslysaáætlun hefur verið virkjuð í Eyjafirði.
Samkvæmt viðbragðaðilum á staðnum tókst kastalinn á loft eftir stóra vindhviðu og festingar rifnuðu upp. Sjúkrabílar, lögregla og slökkvilið mættu skjótt á staðinn og verið er að leita að börnum í kastalanum sem allt loft er farið úr. Upplýsingar um slys á fólki liggja ekki fyrir og aðgengi að svæðinu hefur verið lokað almenningi.
Uppfært:
Áfallahjálparstöð hefur verið komið upp inn í Skautahöllinni. Um 108 börn voru að leik í hoppukastalanum þegar að hann tókst á loft. Áfallarteymi Rauða Krossins er mætt á staðinn og öllum vegum að svæðinu hefur verið lokað. (Uppfært: Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlunnar, sem rekur hoppukastalann, segir að tilkynningar um að 108 börn hafi verið í kastalanum þegar slysið varð séu rangar. Aðeins hafi um 68 miðar verið seldir í sölukerfi Perlunnar.)
„Viðbragðsaðilar eru á vettvangi. Við óskum eftir næðií kringum svæðið til að geta unnið okkar störf,“ segir Kolbrún Jónsdóttir, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, á Vísi.is
Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörgu segir í samtali við Vísi að tiltölulega fá börn hafi slasast og meiðsli hinna slösuðu séu minniháttar. Hann segir að flytja hafi þurft eitt barn á börum á sjúkrahús.
„Alvarlegt slys hefur orðið í stóra hoppukastalanum við Skautahöllina. Lögregla og viðbragðsaðilar óska eftir næði í kringum svæðið til að geta unnið sín störf,“ segir í tillkynningu frá Akureyrarbæ.
Tilkynning frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra vegna málsins:
„Hópslysaáætlun var virkjuð kl. 14.15 hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra þar sem hoppukastali fauk við Skautahöllina á Akureyri með 108 börn að leik inni í honum. Aðgerðastjórn tók strax til starfa og voru viðbragðsaðilar allra eininga fljótir á staðinn. Á þessari stundu er ekki vitað um fjölda slasaðra. Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð í Skautahöllinni þar sem Rauði krossinn sinnir áfallahjálp. Aðstandendum er vísað þangað.“
Myndband af slysstað:
UMMÆLI