Jóhanna Kristjana Gunnlaugsdóttir Briem var fædd árið 1813, yngri dóttir Gunnlaugs Briem sýslumanns á Grund og Valgerðar Árnadóttur. Eldri systir Jóhönnu Kristjönu var Jóhanna fagra en auk þess átti hún fimm bræður. Tvítug að aldri giftist hún Gunnari Gunnarssyni, presti í Laufási. Þau eignuðust fimm börn. Síðar giftist Jóhanna Kristjana, Þorsteini Pálssyni presti á Hálsi í Fnjóskadal. Þeim varð ekki barna auðið.
Eitt barna Jóhönnu Kristjönu og Gunnars var Eggert, fæddur árið 1840. Eggert var 13 ára þegar faðir hans dó. Hann hóf búskap á bænum Espihóli í Eyjafjarðarsveit árið 1866 en brá búi þremur árum síðar þegar eiginkona hans, Elín Sigríður Magnúsdóttur féll frá langt fyrir aldur fram. Eggert var umsvifamikill, hann var kaupstjóri á Akureyri um skeið, sýslumaður í Skagafirði og átti þátt í stofnun kvennaskóla á Laugalandi. Eggert var bróðir Tryggva sem stofnaði Gránufélagið árið 1870 og Katrínar Kristjönu, móður Hannesar Hafstein ráðherra. Árið 1875 var Eggert kosinn á þing. Hann gegndi þingmennsku í fimm ár. Þann tíma bjó hann á Syðra-Laugalandi í Eyjafjarðarsveit.
Eftir fráfall séra Þorsteins 1873, flakkaði Jóhanna Kristjana milli staða þar til hún flutti að Laugalandi til sonar síns 1876. Þar bjó einnig á þeim tíma dóttir hennar og systir Eggerts, amtmannsfrúin Kristjana Katrín. Jóhanna Kristjana andaðist í faðmi barna sinna á Syðra-Laugalandi í október 1878. Séra Daníel Halldórsson prófastur á Hrafnagili hélt húskveðju yfir hinni látnu áður en hún var flutt að Grund þar sem hún var borin til grafar. Þar hvíla foreldrar hennar, bróðir hennar Ólafur Briem timburmeistari og líklega fleiri af Briem-ættinni.
Af Katrínu Kristjönu og Eggerti er það að segja að hún lést í Reykjavík, rúmlega níræð. Þegar hún lést var hún ein elsta konan í bænum. Eggert sigldi til Bretlands sex árum eftir andlát móður sinnar. Það síðasta sem vitað er um afdrif hans nær til fyrri hluta ársins 1886. Þá er eins og jörðin gleypi hann. Engar heimildir eru til sem staðfesta nokkuð um dvalarstað hans eða yfir höfuð hver afdrif hans urðu.
Tvo „minnisvarða“ um Gunnlaug Briem, Valgerði konu hans og börnin þeirra sjö má skoða þegar gengið er um kirkjugarðinn á Grund í dag. Legsteinar systkinanna Jóhönnu Kristjönu Briem og Ólafs Briem standa hlið við hlið og vekja nokkra athygli. Þeir mega þó muna fífil sinn fegurri.
Jóhanna Kristjana, Eggert og Katrín Kristjana koma við sögu í hlaðvarpsþáttum Grenndargralsins, Leitin að Grundargralinu.
Heimild: Grenndargralið
UMMÆLI