Strætóskóli fyrir grunnskólanemendur: „Ég held að allir foreldrar í bænum hljóti að vera sáttir við að minnka skutlið“

Strætóskóli fyrir grunnskólanemendur: „Ég held að allir foreldrar í bænum hljóti að vera sáttir við að minnka skutlið“

Strætóskólinn er nýtt skólaverkefni sem Vistorka, Orkusetur og Símey standa fyrir og er ætlað miðsstigi grunnskóla, með það að markmiði að kynna strætó fyrir grunnskólanemendum og gera þau að sjálfstæðum notendum strætó. Nemendur læra einnig um áhrif einkabílsins á umhverfið og hvað þau geta gert til að draga úr mengun.

Sjá einnig: Nýr vefur Vistorku í loftið

Kaffið.is hafði samband við Eyrúnu Gígju Káradóttur, verkefnastjóra fræðslumála hjá Vistorku, og spurði hana nánar út í Strætóskólann. Að hennar sögn setur frestun á nýju leiðakerfi til sumarsins 2022 smá bakslag í verkefnið. Þau muni engu að síður fara af stað með skólann í haust.

„Grunnskólar Akureyrarbæjar hafa lagt til kennara í samstarfshóp með Strætóskólanum til að útfæra verkefnið svo það falli vel að kennslunni og nýtist bæði nemendum og kennurum sem best. Það er fundur með kennurum frá hverjum grunnskóla á Akureyri á döfinni,“ segir Eyrún.

Vilja fá íþrótta- og tómstundafélögin með sér í lið

Öll íþrótta- og tómstundafélög sem eru með skipulagt æfingarstarf á Akureyri eiga von á pósti frá Strætóskólanum á næstu dögum. Strætóskólinn vill bjóðast til að gera einfaldar leiðarkerfistillögur fyrir hvern flokk út frá æfingartöflum og hverfum bæjarins. „Við viljum fá félögin til að leggjast á eitt með okkur í að auka nýtingu á strætó hjá öllum aldurshópum,“ segir Eyrún.

Frestun á nýju leiðaneti SVA hefur áhrif á verkefnið

Eyrún segir að því miður hafi frestun á nýju leiðakerfi áhrif á verkefnið. „Nýja leiðarkerfið er mun skilvirkara og hefði verið töluvert betra að vinna með það í Strætóskólanum sérstaklega fyrir þennan hóp nemenda sem eru að fara í strætóskólann í haust. Við erum að reyna að nota þær leiðir í Strætóskólanum sem krakkarnir geta svo nýtt áfram sjálf til dæmis til að fara í sund, tónlistarskóla eða íþróttastarf. Gamla kerfið er ekki eins gott hvað þessa þjónustu varðar.“

Sjá einnig: Innleiðingu á nýju leiðaneti SVA frestað.

„Ég held að allir foreldrar í bænum hljóti að vera sáttir við að minnka skutlið, það eru ókeypis almenningssamgöngur í bænum fyrir alla og grátlegt hvað hún er lítið notuð. Nýja leiðarkerfið mun vissulega bæta þessa þjónustu enn betur og þangað til það kemur í gagnið er um að gera að leggjast á eitt og auka notkun strætó til að sýna fram á að grundvöllur er svo sannarlega fyrir nýju og bættu leiðarkerfi,“ segir Eyrún.

Stefnt að því að allir geti tekið þátt

Eyrún segir að verkefnið sé til að byrja með útbúið fyrir grunnskóla Akureyrarbæjar en að stefnt sé að því að verkefnið geti nýst allstaðar á landinu. „Einnig erum við að horfa til þess að útfæra verkefnið með þeim hætti að það nýtist öllum skólastigum, fullorðins fræðslu, íþróttafélögum, félögum eldri borgara og þjónustukjörnum fyrir fatlaða svo eitthvað sé nefnt,“ segir Eyrún að lokum.

Lærðu meira um umhverfismál á Akureyri inn á nýrri vefsíðu Vistorku með því að smella hér.

Myndband um Strætóskólann
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó