Útvarpsnámskeið fyrir upprennandi útvarpsfólk í desember

Þeir sem ekki eru búsettir á Akureyri geta fengið hagkvæma gistingu í gegnum Útvarp Akureyri.

Útvarp Akureyri stendur fyrir nýstárlegu námskeiði þann 9. desember næstkomandi á Akureyri.  Haldið verður námskeið í útvarpsmennsku og öllu því helsta sem starfsemi útvarpsstöðva snýst um.
Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa gengið með þann draum að starfa við Leikhús hugans eins og miðillinn hefur stundum verið kallaður.  Á námskeiðinu verður fjallað um útvarp frá mörgum hliðum.  Farið verður yfir sögu útvarpsins og fjallað um þennan merkilega fjölmiðil sem fylgt hefur manninum frá því á 19. öld og gegndi fyrst hlutverki þráðlausra skeytasendinga.

Á námskeiðinu verður farið yfir tækjabúnað sem viðkemur útvarpsútsendingum, allt frá hljóðveri til sendis og sérstaklega verður fjallað um þann hugbúnað sem útvarpsstöðvar eru keyrðar á í dag.  Þá verður fjallað um hvernig dagskrá verður til og farið yfir grunnatriði í handritsgerð/dagskrárgerð.  Farið verður í saumana á ólíku rekstrarformi útvarps, s.s. ríkisreknum fjölmiðlum og einkareknum.  Þá verður fjallað um lagaumhverfi fjölmiða og útvarps hérlendis og erlendis.

Þungamiðja námskeiðsins er hagnýt; að kenna fólki að umgangast hljóðver og læra á helstu tæki og tól.  Markmiðið er að í lok námskeiðs geti fólk jafnvel sótt um starf í útvarpi.  Útvarp Akureyri er með þessu námskeiði að efla áhuga á þessum einstaka miðli sem styttir okkur stundirnar og er þegar best er á kosið – félagi í lífsins önn.

Námskeiðið hefst laugardagsmorguninn 9. desember kl. 10.00 en því lýkur kl. 17.00.  Hluti af námskeiðinu er svo sá að nemendur fá að spreyta sig á alvöru útvarpsstöð en hver og einn fær úthlutaðan útsendingartíma hjá Útvarpi Akureyrar FM 98.7.  Þannig kynnast nemendur af eigin raun því að standa í hljóðveri og halda uppi útvarpsþætti.  Nemendurnir verða í beinni útsendingu á þessum hluta námskeiðsins sem er skipulagður með hverjum og einum nemanda.  Allir sem sækja námskeiðið geta átt möguleika á ráðningu til útvarpsstarfa hjá Útvarpi Akureyrar.

Axel Axelsson, útvarpsmaður, heldur námskeiðið en hann hefur starfað á mörgum af helstu útvarpsstöðvum landsins og er upphafsmaður Útvarps Akureyrar sem hefur störf 1. desember 2017.
Þetta verður lifandi og skemmtilegt námskeið.

Nánari upplýsingar um skráningu og verð má finna á heimasíðu útvarpsstöðvarinnar www.utvarpakureyri.is.

VG

UMMÆLI