Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur beðist afsökunar á „ámælisverðum viðskiptaháttum“ sem hafi fengið að viðgangast í starfsemi Samherja í Namibíu. Þorsteinn undirritar afsökunarbeiðni sem birtist sem auglýsing í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í dag og þá hefur birst löng yfirlýsing og afsökun á vef Samherja.
Í yfirlýsingunni á vef Samherja er leitast við að gera grein fyrir sjónarmiðum félagsins í Namibíumálinu og jafnframt gera grein fyrir nokkrum helstu niðurstöðum úr rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein. Afstaða Samherja er sú að ekki virðist hafa verið vandað nægilega vel til verka í rekstri félagsins í Namibíu en þó hafi enginn brotið af sér fyrir utan fyrrum framkvæmdastjóra félaga Samherja í landinu, Jóhannes Stefánsson. Jóhannes hefur stigið fram í fjölmiðlum sem uppljóstrari fyrir starfsemishætti Samherja í Namibíu.
„Tölvupóstsamskipti í kjölfar starfsloka hans árið 2016, sem voru hluti af rannsókninni, varpa ljósi á óásættanlega háttsemi hans á meðan hann bar ábyrgð á rekstrinum. Þá lýsa þessi gögn ringulreið meðal starfsfólks Samherja þegar það, eftir brotthvarf fyrrverandi framkvæmdastjóra, reyndi að ná utan um starfsemina sem var ruglingsleg og sumpart með öllu óljós. Samherji bendir á að smám saman hafi starfsmönnum tekist að ná tökum á starfseminni í Namibíu, skilja og bæta úr því sem miður fór og að lokum leggja hana niður. Það er hins vegar ljóst að þá starfshætti, sem hér hafa verið raktir, hefði átt að stöðva mun fyrr. Þeir voru því miður látnir viðgangast allt of lengi. Samherji áréttar að ekki verður séð að aðrir starfsmenn en framkvæmdastjórinn fyrrverandi hafi bakað sér saknæma ábyrgð í störfum sínum,“ segir meðal annars um viðskipti Samherja og Namibísku ríkisútgerðarinnar Fischor í yfirlýsingunni.
„Það er eindregin afstaða mín og Samherja að engin refsiverð brot hafi verið framin í Namibíu af hálfu fyrirtækja á okkar vegum eða starfsmanna þeirra ef undan er skilin sú háttsemi sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hefur beinlínis játað og viðurkennt. Engu að síður ber ég sem æðsti stjórnandi Samherja ábyrgð á því að hafa látið þau vinnubrögð, sem þar voru viðhöfð, viðgangast. Hefur það valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, vinum, fjölskyldum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víðar í samfélaginu. Mér þykir mjög leitt að svo hafi farið og bið ég alla þá sem hlut eiga að máli, einlæglega afsökunar á mistökum okkar, bæði persónulega og fyrir hönd félagsins. Nú reynir á að tryggja að ekkert þessu líkt endurtaki sig, við munum sannarlega kappkosta að svo verði,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf í yfirlýsingunni á vef Samherja.
UMMÆLI