Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2018 var lögð fram í bæjarráði í gær. Rekstarafkoma A- og B-hluta er áætluð jákvæð um 963,2 milljónir króna eftir fjármagnsliði og tekjuskatt. Jafnframt var lögð fram þriggja ára áætlun áranna 2019-2021.
Guðmundur Baldvik Guðmundsson segir að fjárhagsáætlunin beri þess merki, líkt og árið 2017, að rekstur sveitarfélagsins sé í jafnvægi.Hér sé verið að leggja fram fjárhagsáætlun til fyrri umræðu í bæjarstjórn og eðlilega muni hún taka einhverjum breytingum á milli umræðna.
Það sem stendur upp úr í fjárhagsáætluninni er að gert er ráð fyrir um 8% lækkun á álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði auk þess sem aukinn verður afsláttur á fasteignaskatti til elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig hækka frístundaávísanir til barna og unglinga um 50% í 30 þúsund krónur og aukin verða framlög til Menningarfélags Akureyrar í tengslum við menningarsamning við ríkið.
Guðmundur segir að þrátt fyrir að sjálfsögðu verði áfram gætt aðhalds í rekstrinum sé nú ákveðið svigrúm til að bæta í með það að markmiði að gera góðan bæ enn betri. Guðmundur Baldvin segir jafnframt að framkvæmdaáætlun sé ekki endanleg og muni taka breytingum milli umræðna. Væntanlega verði dregið eitthvað úr og framkvæmdir færðar til milli ára.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um fjárhagsáætlun á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður hún til fyrri umræðu í bæjarstjórn Akureyrar þriðjudaginn 7. nóvember og til síðari umræðu þann 5. desember nk.
UMMÆLI