Samkvæmt nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið, sem birtist í Morgunblaðinu í gær, mælast Vinstri græn með mesta fylgi íbúa í Norðausturkjördæmi, eða 28,9%. Ef marka má könnunina yrði mikil endurnýjun á þingliði þar sem þriðjungur þingmanna á Alþingi yrðu nýir einstaklingar. Könnunin var gerð á landsvísu en Kaffið greinir frá niðurstöðum í NA-kjördæmi. Niðurstöður könnunarinnar má nálgast hér.
Sá flokkur sem kemur næst, með rúmlega 10% minna fylgi en VG, er Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn fylgir þar fast á eftir með 16,7%. Samfylkingin hefur aukið við sig talsverðu fylgi í kjördæminu frá síðustu kosningum og mælist nú með 14,9%.
Framsókn sækir á Samfylkinguna með 12,3% fylgi en Píratar og Viðreisn hafa tapað töluverðu fylgi með 2,6% og 2,2%. Flokkur fólksins er jafn Pírötum í fylgi með 2,6% meðan Björt framtíð mælist með minnsta fylgið í könnuninni, eða 1,3%.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar mundi þetta þýða að þrír þingmenn í NA-kjördæmi detta út af þingi meðan þrír nýir úr VG, Samfylkingunni og Miðflokknum kæmu þá inn í staðinn. Á myndinni má sjá fylgi hvers flokks, hvaða þingmenn fara á þing og hverjir detta út ef niðurstöðurnar yrðu þær sömu eftir kosningar á laugardaginn.
UMMÆLI