Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur veitt Sjúkrahúsinu á Akureyri 5 milljónir króna til að fjármagna stöður sálfræðinga sem sinna þjónustu við þolendur ofbeldis.
Samtals voru veittar 15 milljónir króna en framlögin nema 5 milljónum króna til Sjúkrahússins á Akureyri og 10 milljónum króna til geðsviðs Landspítalans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.
Í tilkynningunni segir að þetta sé þriðja árið í röð sem sjúkrahúsunum er veitt sérstök framlög í þessu skyni. Í samstarfsyfirlýsingu sem var undirrituð í mars á þessu ári er fjallað um víðtækt samráð á landsvísu í því skyni að efla aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og afleiðingum þess.
Aukin áherlsa hefur verið lagð á aðstoð, ráðgjöf og meðferð fyrir þolendur eldri ofbeldisbrota. „Allt ofbeldi skilur eftir sig áverka og oft varanleg ör, hvort sem um er að ræða andlegt eða líkamlegt ofbeldi. Það hefur sýnt sig að meðferð hjá sálfræðingi líkt og hér um ræðir getur skipt sköpum um það hvernig fólki reiðir af og hvort það nær að vinna úr afleiðingum ofbeldisins á fullnægjandi hátt. Ég tel því mjög mikilvægt að styðja áfram við þessa þjónustu á sjúkrahúsunum tveimur,“ segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.
UMMÆLI