NTC

Veisluhöldum MA aflýst annað árið í röðNýstúdentar 17. júní 2020 Mynd: ma.is

Veisluhöldum MA aflýst annað árið í röð

Menntaskólinn á Akureyri mun ekki halda veislu fyrir nýstúdenta í ár frekar en í fyrra og þá er búið að aflýsa jubilantahátíð stúdenta sem fer vanalega fram 16. júní. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

„Engar veislur verða í Íþróttahöllinni þann 16. – 17. júní í ár frekar en í fyrra. 25 ára stúdentar hafa aflýst jubilantahátíðinni 16. júní og ekki verður heldur hægt að halda veislu nýstúdenta, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans að kvöldi 17. júní. Afmælisárgangar ætla þó að fagna endurfundum hver í sínu lagi og mögulega geta nýstúdentar líka fagnað saman, þótt ekki verði fjölmenn sameiginleg veisla,“ segir á Facebook-síðu Menntaskólans.

Brautskráning stúdenta fer fram 17. júní frá klukkan 10 til 12 en athöfninni verður streymt að þessu sinni. Ekki er hægt að segja með fullri vissu hversu margir gestir geta verið við brautskráninguna sjálfa.

„Annað árið í röð þarf að fella niður hátíðarveislu nýstúdenta að kvöldi 17. júní. Skoðað verður í samvinnu við nýstúdentana hvort hægt er að gera eitthvað annað sameiginlegt um kvöldið. Jubilantahátíðinni í Íþróttahöllinni 16. júní hefur einnig verið aflýst. Engu að síður stefna afmælisárgangar þó að því að hittast dagana á undan en þeir þurfa þó að fagna hver í sínu lagi en geta ekki sameinast í einni fjölmennri veislu 16. júní eins og í venjulegu ári. Vonandi verður því  fjöldi afmælisárganga á Akureyri þessa daga og skemmta sér eins og rúmast innan sóttvarnarreglna. Hver veit nema haldinn verði söngsalur í kirkjutröppunum,“ segir á vef Menntaskólans.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó