KA og Akureyri mætast í KA heimilinu í dag klukkan 19:00 í baráttu um bæinn og toppsæti Grill66 deildarinnar í handbolta. Þetta er í fyrsta skipti sem liðin mætast eftir að KA sleit sig úr samstarfi Þórs og KA um Akureyri handboltafélag fyrr á þessu ári.
Kaffið heyrði í leikmönnum liðanna og fékk að vita hvernig stemningin væri hjá liðunum fyrir stórleikinn. Hafþór Már Vignisson hefur verið lykilmaður í liði Akureyrar í vetur og er markahæsti leikmaður liðsins með 21 mark eftir fyrstu þrjá leikina. Hafþór er einungis 18 ára gamall en hann hefur spilað fyrir öll yngri landslið Íslands.
Hafþór segir í spjalli við Kaffið.is að stemningin í Akureyrarliðinu sé frábær eftir góða byrjun en allir séu einbeittir og vel stilltir fyrir stórleikinn. Hann segir að það verði ósjálfrátt smá öðruvísi undirbúningur fyrir þennan leik sem er mikil athygli á.
„Ég held það verði bara mjög gaman að mæta svona mörgum af mínum gömlu liðsfélögum og sérstaklega í jafn stórum leik og þessum. Þetta er held ég stærsti leikur á mínum ferli.“
KA dró sig út úr samstarfi Akureyri handboltafélags fyrr á árinu og hafa margir leikmenn yfirgefið Akureyri til þess að spila með KA. Aðspurður hvort það hafi komið til greina að spila með KA í vetur segir Hafþór einfaldlega „nei,“ en Hafþór spilaði með erkifjendum KA í Þór upp alla yngri flokka.
Mikil stemning hefur verið í kringum handboltann í vetur og vel mætt á leiki liðanna. „Ég er ekki frá því að áhuginn á handboltanum í bænum hafi aukist töluvert eftir sambandsslitin.“
Akureyri hefur sem fyrr segir farið vel af stað í Grill66 deildinni í vetur og unnið fyrstu þrjá leiki sína. Hver eru markmið liðsins í vetur? „Stefnan er einfaldlega að fara í alla leiki til að vinna þá. Ef það gengur upp endum við á góðum stað.“
Leikur KA og Akureyrar hefst klukkan 19:00 í KA heimilinu. Húsið opnar klukkutíma fyrir leikinn og aðgangseyrir er 1000 krónur.
Sjá einnig:
UMMÆLI