Hannyrðapönk á Akureyri: „Hárbeittur miðill til að pota í fólk og stöðnuð gildi“

Hannyrðapönk á Akureyri: „Hárbeittur miðill til að pota í fólk og stöðnuð gildi“

Listakonan Sigrún Bragadóttir stendur fyrir sýningu í Kaktus í Listagilinu á Akureyri um helgina. Sigrún, sem kallar sig hannyrðapönkara, segir að fyrir sér séu hannyrðirnar hárbeittur miðill til að pota í fólk og stöðnuð gildi.

„Hannyrðapönk er frjálsleg þýðing mín á enska orðinu „craftivism“, sem er samsett úr ensku orðunum craft og activism. Hannyrðapönkari er hver sú mannseskja sem notar handverk, hannyrðir, sköpun sína til að láta gott af sér leiða, vekja athygli á hverskyns samfélasmeinum eða vekur samferðafólk sitt til umhugsunnar“ segir Sigrún við Kaffið.is.

Sigrún saumar meðal annars með mannshári og kemur á framfæri boðskap sínum um jafnrétti á sláandi hátt. Meðal annars hefur hún saumað gömul slanguryrði yfir kynfæri kvenna í rokokostól. Sigrún hefur áður haldið ýmsa femíniska gjörninga í Reykjavík og vakið athygli á nauðgunarómenningu og misrétti.

„Fólk getur búist við því að móðgast, heillast og hlæja á sýningunni yfir bróderuðum fúkyrðum úr mannshárum, glettnum pælingum um greddu kvenna til forna og gröffuðum útsaumsverkum,“ segir Sigrún um sýninguna í Kaktus.

„Eflaust finnst mörgum boðskapurinn í myndlist minni helbert bull og óþarfa væll yfir vangaveltum um kynjajafnrétti og afleiðingar kynferðisofbledis. En fyrir mér eru hannyrðirnar hárbeittur miðill til að pota í fólk og stöðnuð gildi. Hannyrðir eru, sjáiðu til, oft álitnar dúllerí eða jafnvel kvenleg dyggð. Og er þá ekki best að nota mýktina til að vekja athygli á harðneskjunni? Ekki er verra að geta hent smá húmor með í blönduna,“ segir Sigrún.

Sýningin hefst á morgun, föstudagskvöld klukkan 20.00 og verður einnig opin á laugardag og sunnudag á milli klukkan 13.00 og 17.00.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó