Störf og staðsetningar

Störf og staðsetningar

Gauti Jóhannesson skrifar:

Til að ungt fólk snúi aftur heim á landsbyggðirnar að loknu námi verður það að geta fengið störf við hæfi. Menntamál eru hvort tveggja í senn atvinnumál og byggðamál. Stórt skref var stigið á sínum tíma með stofnun Háskólans á Akureyri sem stuðlað hefur að byggðafestu og uppgangi í fræðasamfélaginu á Norðurlandi og þó víðar væri leitað. Ruðningsáhrif háskólans eru öllum ljós enda ber samfélagið og menningarlífið á Norðurlandi þess glöggt vitni. Það breytir ekki því að stór hópur ungs fólks af svæðinu leitar annað í nám og verður að hafa að einhverju að hverfa til að það komi aftur heim.

Ein af helstu forsendum fyrir því að öflug samfélög nái að vaxa er að í þeim sé að finna fjölbreytt atvinnulíf. Undanfarin ár hefur hugmyndin um störf án staðsetningar rutt sér til rúms. 
Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar er lögð sérstök áhersla á að stofnanir ríkisins leiti leiða til að fjölga slíkum störfum og er það vel. Byggðaáætlun 2018-2024 tekur einnig mið af þessum markmiðum og þar er stefnt að því að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki.

Þetta er allt gott og gilt en breytir ekki því að víða um land eru byggðarlög sem búa við einsleitt atvinnulíf og þar væri auðveldlega hægt að sinna mörgum af þeim störfum sem nú eru skilgreind án staðsetningar. Á ferðum mínum um kjördæmið undanfarnar vikur hefur mér orðið þetta enn ljósara en áður. Við þessu þarf  að bregðast með markvissum hætti.
Ég er ekki talsmaður þess að fjölga opinberum störfum umfram það sem nauðsynlegt er. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að stofnanir hins opinbera þurfi, í stað þess að bjóða störf án staðsetningar að bjóða störf með ákveðinni staðsetningu í því skyni að auka fjölbreytni í byggðum utan höfuðborgarsvæðisins sem á því þurfa að halda.

Þessa dagana er verið að undirbúa formlega opnun starfsstöðvar Ríkisendurskoðunar á Akureyri. Í Neskaupstað tóku til starfa tveir starfsmenn á vegum Hafrannsóknastofnunar nýlega. Matvælastofnun hefur auglýst störf staðsett á Austurlandi og fleiri stofnanir mætti telja. Þessar stofnanir hafa stigið mikilvæg skref í þá átt að auka fjölbreytni starfa þar sem þau hafa verið sett niður og þar með fjölgað valkostum ungs fólks sem vill setjast að á landsbyggðunum – eða ekki flytja suður.

Fleiri þurfa að fylgja í kjölfarið og ríkisvaldið ætti að ganga á undan með góðu fordæmi. Í febrúar 2020 var öllum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu sent sniðmát um greiningu starfa, 78% þeirra skiluðu greiningu þar sem fram kemur að 890 störf eða um 13% stöðugilda gera ekki kröfu um staðsetningu í Reykjavík. Það munar um minna.

Það þarf að vera raunverulegur valkostur fyrir unga fólkið okkar að búa utan höfuðborgarsvæðisins – þó það hafi leitað sér menntunar þangað. Við getum gert betur.

Höfundur, er forseti sveitarstjórnar Múlaþings og býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningar árið 2021.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó