Norðlenskar konur í tónlist slógu í gegn í Flugsafni Íslands fyrir um ári síðan, en þar flutt þær tónlist tengda stríðsárunum og hugljúfar ballöður undir yfirskriftinni Um loftin blá. Fullt var út úr dyrum á tónleikunum og viðtökur gesta frábærar.
Í tilefni af Dömulegum dekurdögum, sem fram fara á Akureyri dagana 5.- 8. október, ætla tónlistarkonurnar að koma sér í fluggírinn á ný innan um glæsilegar flugvélar safnsins og halda tónleika föstudaginn 6. október kl. 21.00.
Fram koma Ásdís Arnardóttir, kontrabassi, Helga Kvam, píanó, Kristjana Arngrímsdóttir, söngur, Lára Sóley Jóhannsdóttir, söngur og fiðla og Þórhildur Örvarsdóttir, söngur. Norðlenskar konur í tónlist er hópur tónlistarkvenna sem allar eru félagskonur í KÍTÓN.
Þær hafa starfað saman frá haustinu 2015 og staðið fyrir fjölda viðburða um land allt. Markmið þeirra er að efla samstöðu meðal kvenna í tónlist og hvetja hvora aðra til frumsköpunar og að takast á við nýjar áskoranir. Miðasala er á www.tix.is og við innganginn.
UMMÆLI