Tjörvi gerir upp árið sitt í mögnuðu myndbandi

Tjörvi Jónsson er ungur Akureyringur sem hefur verið að fóta sig áfram í myndbandagerð. Tjörvi heldur úti Facebook síðu þar sem hann setur inn myndböndin sín sem hafa verið að fá mikla athygli. Hann hefur einnig verið að taka upp auglýsingar og kynningarefni fyrir fyrirtæki.

Ásamt því að gefa út myndbönd heldur Tjörvi út Snapchat aðgangi þar sem hann sýnir frá dögum í lífi sínu sem hann segist að mestu leyti snúast um myndbandagerð. Tjörvi hefur til að mynda unnið náið með strákunum í Miðjunni sem gefa út allskonar myndbandsefni á samfélagsmiðlum.

Tjörvi sendi frá sér myndband á dögunum sem hann tileinkaði systur sinni Þorgerði Kristínu sem lést fyrir einu ári síðan. Tjörvi segir að myndbandið sé það besta sem hann hafi gert til þessa. Myndbandið er um síðastliðið ár í lífi Tjörva. „Ég var ekki byrjaður að taka upp og búa til myndbönd þegar hún kvaddi þennan heim, þannig hún er í rauninni ekki í þessu myndbandi. En einhvern veginn finnst mér eins og hún eigi þetta myndband, eins og hún móti hvernig og hvaða einstaklingur ég er.“

Tjörvi stefnir á að halda áfram að gera myndbönd og segir ferðalög vera það sem heilli hann mest. Eftir menntaskóla ætli hann sér að ferðast um heiminn og taka upp myndbönd. Yfir 4000 manns hafa horft á nýjasta myndband Tjörva sem má sjá hér að neðan. Hægt er að sjá fleiri myndbönd eftir Tjörva á Facebook síðu hans með því að smella hér.

VG

UMMÆLI

Sambíó