Öryggið á oddinn í sumar

Öryggið á oddinn í sumar

Síðastliðið sumar var sannarlega viðburðaríkt hjá Varðveislumönnum minjanna. Skemmtilegar gönguferðir á slóðir setuliðsmanna í og við Hlíðarfjall ofan Akureyrar og í Hörgárdal. Óvæntar uppgötvanir í fjallinu og  fundur merkilegra stríðsminja. Spennandi sprengjuleiðangrar með Landhelgisgæslunni. Hlaðvarpsþættir um vetrarhernað breskra, bandarískra og norskra hermanna í fjallinu á stríðsárunum. En þó umfram allt skemmtilegt samfélag grúskara sem deilir áhuga á sögu, útiveru og varðveislu sögulegra minja í heimabyggð.

Árið 1980 fóru feðgin í hressingargöngu upp á Súlur. Á leið þeirra um Súlumýrar gengu þau fram á torkennilegan hlut sem faðirinn tók til handargagns (sjá mynd). Hann vissi hvers kyns var og taldi óhætt að flytja sprengjuhólkinn til byggða þar sem hann var holur að innan og vantaði á hann oddinn. Sprengjan sem feðginin fundu var líklega úr amerískri AA gun loftvarnarbyssu. Hún hefur verið í eigu föðurins í rúm 40 ár. Dóttirin deildi þessari litlu lífsreynslusögu með Varðveislumanni minjanna nú þegar sól hækkar á lofti og snjóa leysir með tilheyrandi fjallabrölti útivistarfólks.

Þó allt hafi farið á besta veg í tilfelli feðginanna á Súlumýrum er rétt að minna fólk á að ennþá eru að finnast á víðavangi virkar sprengjur frá breska og ameríska setuliðinu. Þó tilfellin séu ekki mörg hér um slóðir á undanförnum árum er full ástæða til að minna útivistargarpa á eftirfarandi: Undir engum kringumstæðum skal hreyfa við hlutum í hlíðunum ofan við Akureyri, við rætur Súlna og inn í Glerárdal sem kunna að vera leifar af gömlum sprengjum úr seinni heimsstyrjöldinni. Þessir staðir voru æfingasvæði setuliðsins á stríðsárunum. Hið rétta í stöðunni er að taka myndir af hlutnum, merkja staðsetninguna og gera Lögreglu eða sprengjudeild Landhelgisgæslunnar viðvart.

Setjum öryggið á oddinn og njótum fallegrar náttúru í heimabyggð í sumar.

Heimild: Grenndargralið.

Sambíó

UMMÆLI