KA vann öruggan 3-0 sigur á Leikni í Pepsi Max deild karla í fótbolta í gær. Octavio Paez, leikmaður Leiknis, fékk rautt spjald fyrir ljóta tæklingu á 84. mínútu leiksins.
Sjá einnig: Öruggur sigur KA sem fer á toppinn
Töluverð umræða hefur myndast um atvikið á samfélagsmiðlinum Twitter en þar eru margir á því að tæklinguna megi flokka sem líkamsárás og að Paez eigi að fá langt bann.
Kári Gautason, leikmaður fæddur árið 2003, varð fyrir tæklingunni en virðist sem betur fer hafa sloppið heill frá henni.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, var ósáttur með sinn eigin leikmann og segir það vera heppni að Kári meiddist ekki illa. „Þetta er ein hættulegasta tækling sem ég hef séð og ég vona að hann fái meira en eins leiks bann. Þetta er gjörsamlega glórulaust hjá honum,“ segir Sigurður í viðtali við Fótbolta.net sem má finna hér.
UMMÆLI