Grindvíkingar komu í heimsókn á Akureyrarvöll heimavöll KA í dag í 21. umferð Pepsi deildar karla í fótbolta. Fyrir leikinn munaði 2 stigum á liðunum í 5. og 6. sæti deildarinnar. KA menn gátu með sigri tryggt sér sæti í efri hluta deildarinnar.
Það var mikil stemning á vellinum en þetta var síðasti heimaleikur KA manna á tímabilinu. KA menn fengu vítaspyrnu strax á 3. mínútu en Elfar Árni Aðalsteinsson framherji liðsins lét verja frá sér. Emil Lyng náði að brjóta ísinn á 38. mínútu leiksins með flottu marki eftir sendingu frá Steinþóri Frey.
Emil var svo aftur á ferðinni 4 mínútum síðar þegar hann átti sendingu inn á Hallgrím Mar Bergmann sem bætti við öðru marki KA. Staðan í hálfleik 2-0 fyrir KA.
Grindvíkingar náðu að minnka muninn með marki á 51. mínútu þegar Simon Smidt skoraði. Ekki voru fleiri mörk skoruð og 2-1 sigur KA manna því staðreynd
KA menn fara því upp fyrir Grindvíkinga í 5. sæti deildarinnar en síðasti leikur tímabilsins er næstkomandi laugardag þegar liðið ferðast til Vestmannaeyja og mætir ÍBV.
UMMÆLI