NTC

KFA hefur val um að fara í Laugargötu endurgjaldslaust eða fá 4 milljónir á ári frá Akureyrarbæ

Silja Dögg Baldursdóttir skrifar:

Síðustu daga hefur átt sér stað umræða m.a. á vefmiðlum um samskipti Akureyrabæjar og Kraftlyftingarfélags Akureyrar (KFA) og hefur sú umræða ekki verið byggð á málefnalegum grunni en málið snýst í stuttu máli um óánægju KFA vegna þess stuðnings sem Akureyrarbær er tilbúinn til að veita félaginu.
Forsaga málsins er sú að húsnæðismál KFA, sem er annað tveggja íþróttafélaga innan ÍBA sem hefur ekki aðstöðu í húsnæði á vegum bæjarins, hafa verið til umfjöllunar hjá Akureyrarbæ í nokkurn tíma.  Mikil vinna hefur farið í að leita lausna og hefur Akureyrarbær átt í samtali við KFA vegna þessa en eins og staðan er í dag hefur Akureyrarbær ekki til umráða húsnæði af þeirri stærð sem félagið óskar eftir.  Upphaflega hafði KFA aðstöðu í Íþróttahöllinni en flutti starfsemi sína árið 2013 á jarðhæð í Sunnuhlíð 12. Íþróttabandalag Akureyrar samþykkti að greiða leigu fyrir þá aðstöðu og jafnframt vegna aðstöðu fyrir Júdófélagið Draupni sem var á fyrstu hæð í sama húsi. Leigan var greidd með styrk sem ÍBA fékk frá Akureyrarbæ. Árið 2016 hófst vinna við að koma Draupni og KFA fyrir í húsnæði Akureyrabæjar og flutti þá Júdófélagið Draupnir starfsemi sína í Laugargötu. KFA flutti hinsvegar ekki í Laugargötu vegna áætlaðs kostnaðar við breytingar og félaginu þótti rýmið of lítið.

Í vor óskaði svo ÍBA eftir stuðningi bæjaryfirvalda við að greiða leigu KFA árið 2017 í Sunnuhlíð 12 þar sem ÍBA hafði ekki bolmagn til að standa undir greiðslum.
Á þessum tímapunkti lá fyrir að KFA þyrfti að fara úr húsnæðinu í Sunnuhlíð 12 í lok ágúst, þar sem búið var að selja húsnæðið og í kjölfarið samþykki Akureyrarbær að leggja fram aukið fé að upphæð 4.680.000 kr. til að greiða húsaleigu fyrir KFA tímabilið janúar – ágúst. Salan á húsnæðinu í Sunnuhlíð gekk hins vegar til baka í sumar og í framhaldinu buðu eigendur húsnæðisins Akureyrarbæ fjögurra ára leigusamning með 34,6% hækkun en við því gat Akureyrarbær því miður ekki orðið. Frístundaráð Akureyrarbæjar samþykkti hinsvegar á fundi sínum í síðustu viku, með þremur atkvæðum meirihluta ráðsins, að bjóða KFA aðstöðu í íþróttahúsinu við Laugargötu endurgjaldslaust. Þessu til viðbótar var samþykkt að ef KFA hyggst ekki þiggja aðstöðuna í Laugargötu þá verði lagt til við bæjarráð að félaginu verði veittur styrkur að upphæð 4 milljónir króna á ári næstu fjögur árin (2018-2021). Ef þessi beiðni frístundaráðs verður samþykkt verður Akureyrarbær búinn að styrkja KFA í gegnum ÍBA um rúmar 6 milljónir króna á árinu 2017.

Akureyrarbær er stoltur af því að hafa kröftugt og fjölbreytt frístundaframboð fyrir börn og ungmenni.  Árlega úthlutar bærinn rekstarstyrkjum til íþróttafélaga þar sem áhersla er á barna- og unglingastarf, rekstur húsnæðis og fjölda iðkenda, sú úthlutun er samkvæmt fyrirfram skilgreindri reiknireglu. Heildarupphæð eingreiðslustyrkjana eru 6,5 milljónir sem dreifast á 15 félög og fékk KFA úthlutað 250.000 kr. í vor.  Akureyrarbær hefur lagt sig fram um að finna lausn á þessu máli og m.a. hefur verið ræddur möguleikinn á að gerður verði uppbyggingarsamningur við félagið en þangað til það mál hefur verið klárað þá er niðurstaðan sú að félaginu stendur til boða aðstaða í Laugargötu án endurgjalds eða styrkur vegna leigu á húsnæði í eigu þriðja aðila upp á 4 milljónir á ári. Það er hlutverk meirihluta að hugsa um heildina, forgangsraða og fara vel með fjármuni og það er mat meirihluta að það sé raunin í þessu máli.

Fyrir hönd meirihlutans,
Silja Dögg Baldursdóttir

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó