Rakel gefur út sína fyrstu plötu: „Virðist vera alveg fullt af fólki þarna úti sem hlustar á tónlistina mína“

Rakel gefur út sína fyrstu plötu: „Virðist vera alveg fullt af fólki þarna úti sem hlustar á tónlistina mína“

Akureyrska tónlistarkonan Rakel Sigurðardóttir gefur út sína fyrstu plötu á morgun, 7. Maí. Platan er fjögurra laga EP plata sem heitir Nothing ever changes. Rakel segir að patan hafi verið tilbúin nú í rúmt ár og að það verði ákveðinn léttir að gefa hana loks út.

Platan mun innihalda lög á borð við Keeping me awake og Our favorite line. Lög sem Rakel hefur þegar gefið út og hafa vakið verðskuldaða athygli. Auk þeirra sendi Rakel frá sér lagið Ég var að spá á dögunum ásamt tónlistarmönnunum Jóa P og Ceasetone.

Sjá einnig: Rakel gefur út lag með JóaP og CeaseTone

„Viðbrögðin við þeim lögum sem ég hef gefið út eru alveg vonum framar. Ég gat eiginlega ekki ímyndað mér hvað myndi gerast, en það virðist vera alveg fullt af fólki þarna úti sem hlustar á tónlistina mína, sem mér finnst alveg magnað og auðvitað ótrúlega skemmtilegt,“ segir Rakel í samtali við Kaffið.

Platan Nothing ever changes er eins og áður segir fyrsta plata Rakelar en hún er enginn nýgræðingur þegar að kemur að tónlist.

„Ég hef alla mína tíð verið að vasast í tónlist, byrjaði að læra á fiðlu 6 ára gömul og bætti síðan jazz söng námi við þegar ég var 14 ára til þess að ganga úr skugga um að það væri alveg örugglega alltaf nóg að gera. Síðust ár hef ég mikið komið fram með öðru tónlistarfólki sem hefur verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt en ég vissi alltaf að ég myndi gefa út mína eigin tónlist, það bara tók mig smá tíma. Ég er ekkert að flýta mér mikið, svona almennt,“ segir Rakel.

„En núna loksins er að koma út ein lítil plata eftir mig, með ómetanlegri hjálp Hafsteins Þráinssonar. Við höfum verið vinir núna í sirka fimm ár. Við kynntumst í gegnum það að túra með Axel Flóvent, tónlistarmanni. Haffi var alltaf að pikka í mig og biðja mig um að kíkja í stúdíóið með það sem ég var búin að vera að bauka en mér fannst ég aldrei vera tilbúin. Seinni hluta árs 2019 þá lét ég verða að því og þá fór þetta svona almennilega af stað. Það er búið að vera svo gaman og fallegt að vinna með Haffa.“

Rakel segir að það hafi verið gott að fara inn í svona verkefni með góðum vin. „Sérstaklega einhverjum sem skilur hvaðan maður er að koma, tónlistarlega séð og tilfinningalega.“

Hún segir að platan hafi klárast rétt áður en að Covid faraldurinn skall á hér á landi og að ferlið hafi því ef til vill verið aðeins öðruvísi en hún hafði ímyndað sér.

„Á sama tíma er þetta allt mjög nýtt fyrir mér, ég hef aldrei gefið út tónlist áður, þannig að að gefa út tónlist í Covid er í rauninni það eina sem ég þekki. Til þess að vera alveg hreinskilin þá er ég smá stressuð yfir tilhugsuninni um að spila á alvörunni tónleikum, það er orðið eitthvað svo fjarstæðukennt og ég þarf hægt og rólega að endurprógramma hausinn minn til þess að undirbúa hann fyrir heim þar sem tónleikar eru venjulegur partur af lífinu. Svo er auðvitað alveg líka hluti af mér sem er spenntur fyrir því að halda tónleika fyrir vonandi fullt af fólki, fá að tengja við fólk í gegnum það og upplifa viðbrögð þess frá fyrstu hendi en ekki bara í gegnum netið.“

Hún segir að vonandi geti hún farið að spila á tónleikum einhverntímann í sumar en nú þurfi bara að bíða aðeins og sjá hvernig hlutirnir fara Covid-lega séð. Það er þó nóg annað að gera hjá Rakeli.

„Ég hef verið að vinna að plötu í fullri lengd sem verður vonandi tilbúin einhverntímann á þessu ári. Ég er líka í mjög spennandi verkefni með vinkonum mínum og mögnuðu tónlistarkonunum Salóme Katrínu og ZAAR, mjög margt spennandi þar sem ég hlakka til þess að tala meira um seinna. En svo er líka að koma sumar og ég ætla að vera dugleg að elda mat með vinum mínum og vera úti að leika,“ segir Rakel Sigurðardóttir.

Hægt verður að hlusta á plötuna á streymisveitum á morgun, 7. maí, með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó