Viljar Níu Már gefur út nýtt lag og myndband í Kjarnaskógi

Skjáskot úr myndbandinu hans Viljar Niu Mar.

Viljar Már Hafþórsson er 28 ára gamall akureyringur sem gaf út lagið Paranoid in paradise um helgina. Viljar hefur verið að skrifa, rappa og syngja frá unglingsárum og er um þessar mundir að leggja lokahönd á tvær smáskífur, önnur þeirra kemur út 17. september næstkomandi.

Laginu fylgir virkilega flott myndband sem var tekið upp í Kjarnaskógi en þar er myndatökumaðurinn að fylgja Viljari eftir þar sem hann gengur eftir öllum skóginum með hjólabretti á bakinu. Myndbandið er í senn fallegt og myndrænt. Myndbandið er skotið af Þorbergi Erlendssyni.
,,Leiðin er mín hugmynd þar sem að mer finnst þetta mjög falleg leið og finnst alltaf þægilegt að rölta þarna í gegn þegar ég vil fá frið og vera með sjálfum mér. Lagið sjálft snýst um mína eigin baráttu við þunglyndi því ég veit að ég bý á góðum stað, á góða að sem elska mig og ég elska en samt á ég mjög erfitt með að finna gleði.“

Viljar kallar sig Níu því að hann er með 9 fingur, en hann missti einn fingur í slysi fyrir nokkru síðan.
,,Ég kýs að kalla mig Níu því að ég er með 9 fingur og einnig finnst mér það lýsa mér vel andlega, því að mínu mati er ekkert upp á 10, ekkert er fullkomið. Það er alltaf hægt að gera betur,“ segir Viljar í samtali við Kaffið.

Viljar segir væntanlegu plöturnar vera fjölbreyttar og taka hlustendur í ferðalög. Þær eru blanda af rokki, punki og rappi í old school fíling að sögn Níu. Textarnir eru unnir út frá goðsagna- og skáldskapaverum og þannig reynir hann að halda söguþræði út plötuna.
,,Lögin eru ekki alveg í sama stíl og þetta lag á smáskífunni Subtle Insanity, það er smá söguþráður. Fyrst færðu lagið Shock, Paranoid in paradise tekur við, síðan lagið MAN og svo fer ég út í geim í laginu UFO. Platan er unnin af mér, Birki Leo (b-leo) og Pétri Trausta (nvre$t).“

Önnur smáskífa Viljars bet heitið Ritnarrök en á henni verða öll lögin á íslensku.

Hér að neðan er hægt að horfa á myndbandið og hlusta á lagið.

VG

UMMÆLI