Framsókn

Deilum bílum

Elín Ósk Arnarsdóttir skrifar:

Það kannast flestir við gróðurhúsaáhrifin og vita að loftmengun auka áhrifin sem veldur hlýnun jarðar. Loftmengun stafar af mörgum þáttum og mörgum geta liðið eins og litlu peði í baráttunni gegn henni. Það eru auðvitað þættir eins og orkuvirkjanir, eyðing skóga, náttúruhamfarir og iðnaður sem spila stórt hlutverk í mengun andrúmsloftsins. En svo eru þættir eins og útblástur farartækja og reykingar sem við getum nokkuð auðveldlega haft áhrif á. Við getum kannski ekki lokað verksmiðjum í Kína en raunsærra er að draga úr notkun bíla eða hætta að reykja.

Eins og í öllu þegar kemur að sjálfbærni og umhverfismálum skiptir allt þetta litla máli. Bara það að ein manneskja hættir að reykja minnkar loftmengun um pínulítið hlutfall sem þó getur haft áhrif seinna meir í stóra samhenginu. Eða bara það að ganga alltaf þennan kílómeter í vinnuna í stað þess að keyra gerir gæfumuninn fyrir andrúmsloftið. Við hérna á Íslandi gerum okkur ekki grein fyrir hvað við erum heppin að hafa svona hreint loft en í mörgum borgum úti í heimi sést ekki milli húsa vegna loftmengunar. Við ættum að gera allt í okkar valdi til að draga sem mest úr loftmengun áður en aðstæður verða slæmar.

Þá erum við komin að kjarnanum: deilum bílum. Þetta snýst ekki um að deila bílnum þínum með nágrannanum eða vinnufélaganum heldur er til fyrirbæri sem nefnist deilibíll. Það er bíll sem er næstum því eins og bílaleigubíll nema þú ert í ,,áskrift”. Þú skráir þig sem meðlim og getur notað svokallaðan deilibíl þegar þú þarft að komast um á bíl. Þetta er hentugt að mörgu leyti þar sem þú þarft ekki að sjá um viðgerðir, bílatryggingar, skipta um dekk og þú verndar umhverfið. Samkvæmt rannsóknum sem gerðar voru í London notar meðalmaður bílinn sinn aðeins 4,6 klukkustundir á viku sem þýðir að bíllinn stendur ónotaður 97% vikunnar. Þá er mun sniðugra að vera með færri bíla sem eru betur nýttir. Það er að segja deilibíla.

Þetta samnýtingarkerfi hefur verið tekið upp úti í heimi og nú er farið að tala um að framkvæma þetta í Reykjavík. Mér finnst það frábær þróun og hvetur fólk til að eiga færri bíla eða enga. Minn draumur væri að vera bíllaus en lífið á Íslandi gerir það nokkuð erfitt þar sem bæði veður og lélegar samgöngur spila þar inn í. En að hafa aðgengi að bíl þegar þú þarft á því að halda væri náttúrulega sannkallaður draumur. Mig langar eindregið að hvetja fólk til að nýta sér þessa deilibíla svo að þetta gangi. Enn fremur væri gaman að sjá þessa þróun í fleiri sveitarfélögum. Þá væri rökrétt að með minna sveitarfélagi væru færri deilibílar. Akureyri er t.d. sveitarfélag sem er framarlega í umhverfismálum. Þar er frítt í strætó, mikil áhersla á endurvinnslu og sérstök bílastæði fyrir umhverfisvænni bíla. Hvað með að bæta við deilibílum á listann?

„The earth is what we all have in common.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó