KA/Þór vann afskaplega sterkan og mikilvægan sigur gegn Valskonum í handbolta í Ka-heimilinu í dag. KA/Þór eru nú áfram jafnar Fram að stigum í efstu sætum úrvalsdeildar kvenna í handknattleik, Olísdeildarinnar, eftir sigurinn.
Aldís Ásta Heimisdóttir var markahæst í liði KA/Þór í dag en hún skoraði sjö mörk. Þá átti Matea Lonac stórleik í markinu. Hún varði tólf skot og var með 40% markvörslu.
KA/Þór eru með 20 stig í efsta sæti deildarinnar ásamt Fram en liðin mætast í hreinum úrslitaleik um Deildarmeistaratitilinn í lokaumferðinni.
Stelpurnar eru auk þess nú öruggar með sæti í undanúrslitum í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.
UMMÆLI