Ferðagarpurinn Erró: Opnun laugardaginn 1. maí kl. 12-17

Ferðagarpurinn Erró: Opnun laugardaginn 1. maí kl. 12-17

Laugardaginn 1. maí kl. 12-17 verður opnuð sýning á verkum Errós, Ferðagarpurinn Erró, í Listasafninu á Akureyri. Á sýningunni má sjá verk sem tengjast ferðalögum. Hvert sem hann fer sankar Erró að sér hundruðum mynda og nýtir í samklippuverk sem smám saman verða að málverki. Hugmyndin um ferðalög og tilfærslur birtist í mörgum verkum, þar sem hann notar mótíf eins og flugvélar, lestir, eldflaugar, fugla, hesta eða jafnvel ofurhetjur, á sértækan hátt í seríum sem varða „heimsferð Maós“, „geimferðir“ og „konur frá Norður-Afríku“.

Erró stundaði listnám í Reykjavík, Ósló í Noregi og Ravenna og Flórens á Ítalíu, þar til hann settist að í París 1958, eftir nokkurra mánaða dvöl í Ísrael. Mörg ferðalög fylgdu þar á eftir og má nefna sögulegar ferðir til New York í Bandaríkjunum, Moskvu í þáverandi Sovétríkjunum og Havana á Kúbu. Í heimsreisu sinni 1971-1972 lá leið hans um Asíu. Frá því á áttunda áratugnum hefur Erró skipt búsetu sinni milli Parísar í Frakklandi, Bangkok í Taílandi og Formentera á Spáni.

Verkin á sýningunni eru hluti af Erró-safneign Listasafns Reykjavíkur og sýningarstjóri er Danielle Kvaran Erró – sérfræðingur safnsins. Sýningin stendur til 12. september og er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri og Listasafns Reykjavíkur.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó