Óvænt úrslit urðu á Þórsvelli í kvöld þegar topplið Þór/KA gerði 3-3 jafntefli við Fylki. Þetta var fyrsti leikur Fylkisliðsins undir stjórn Hermanns Hreiðarssonar en Fylkisstúlkur voru fyrir leikinn með 4 stig í næst neðsta sæti.
Markaskorarinn Sandra Stephany Mayor kom Þór/KA yfir á 42. mínútu og því útlit fyrir að Þór/KA hefðu yfirhöndina í hálfleik. Annað kom á daginn því Kaitlyn Johnson, sem kom til Fylkis á dögunum, skoraði tvö mörk áður en flautað var til hálfleiks og hálfleikstölur því 2-1 Fylki í vil.
Caragh Milligan bætti svo við þriðja marki Fylkis í byrjun seinni hálfleiks og útlitið svart fyrir Þór/KA. Sandra María Jessen minnkaði muninn svo muninn í 2-3 á 86.mínútu og Sandra Stephany Mayor bjargaði svo stigi fyrir heimakonur með því að skora jöfnunarmark undir blálokin. Lokatölur á Þórsvelli því 3-3 og Þór/KA áfram á toppnum með 32 stig og Fylkir áfram næst neðstar með 5 stig.
UMMÆLI