Það er mikið ánægjuefni að geta sagt frá því að Akureyrarbær mun veita skólabörnum í grunnskólum bæjarins gjaldfrjáls námsgögn frá og með hausti 2017. Akureyri hefur þá fetað í fótspor fleiri sveitarfélaga sem hafa valið að fara þessa leið.
Þegar ég tók við formennsku í fræðsluráði í desember s.l. þá óskaði ég eftir upplýsingum um kostnað þess að taka upp gjaldfrjáls námsgögn fyrir grunnskólanemendur á Akureyri. Síðustu mánuði hef ég ásamt starfsfólki fræðslusviðs farið yfir málið og á fundi fræðsluráðs þann 26. júní síðastliðinn var samþykkt tillaga þess efnis að skólagögn verði gjaldfrjáls fyrir nemendur í grunnskólum Akureyrarbæjar. Bæjarráð samþykkti svo með öllum greiddum atkvæðum að fara þessa leið en áætlaður kostnaður er um 16 milljónir króna.
Í þessu felst að nemendum verði útvegað skólagögn þ.e. stílabækur, reikningsbækur, blýanta og tilheyrandi. Foreldrar þurfa áfram að útvega skólatösku, íþróttaföt og sundföt. Foreldrar eru hinsvegar hvattir til að nýta ónýttar bækur og ritföng sem liggja inn á heimilum en námsgögnin verða geymd í skólunum og þurfa nemendur að nota sín eigin skriffæri þegar kemur að heimanámi. Þannig náum við að minnka sóun á fjármunum heimila og sveitarfélags enda á skólinn að vera samvinnuverkefni beggja.
Akureyrarbær tók þá ákvörðun um að verða fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að innleiða Barnasáttmálann og verða þannig barnvænt sveitarfélag. Þetta er einn þáttur í því að forgangsraða í þágu barna og barnafjölskyldna.
Eins og áður sagði þá hafa fleiri sveitarfélög farið þessa leið eins og Ísafjörður og Reykjanesbær sem eftir útboð náði fram verulegri lækkun á innkaupum skólagagna.
Ég verð að þakka starfsfólki fræðslusviðs og ekki síst skólastjórnendum sem hafa nú í sumar verið ómetanleg hjálp í að áætla námsgögn fyrir örútboð sem Akureyrarbær fór í. Það er von mín að þessi breyting gangi vel og sé íbúum og ekki síst foreldrum grunnskólabarna til mikilla hagsbóta. Ég vil að lokum senda öllum skólabörnum, foreldrum, starfsfólki grunnskólanna óskir um farsælan og góðan skólavetur 2017-2018.
Dagbjört Pálsdóttir
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður fræðsluráðs
UMMÆLI