NTC

Ekki dæma bókina af kápunni

Elín Ósk Arnarsdóttir skrifar:

Ég fer oft á bókasafnið, enda mikill lestrarhestur, og rölti um í leit af góðri bók. Þrátt fyrir að vera meðvituð um að kápan segi ekki allt hefur hún mikil áhrif á val mitt. Ég leita frekar í bók með nýlega, snyrtilega og glansandi kápu en gamla skruddu sem er alveg einlit með gyllta stafi. En ætti ég ekki að gefa bókunum með óheillandi kápur séns? Einhverjar þeirra gætu verið algjörir gullmolar sem ég fer á mis við ef ég læt kápur stýra vali mínu á bókum. Og þetta á við um svo margt fleira en bara bækur.

Guð gaf okkur augu svo við gætum séð allt milli himins og jarðar. En í samfélagi þar sem hraðinn er mikill notum við augun of mikið en hjartað og tilfinninguna of lítið. Í stað þess að gefa okkur tíma til að sjá og kynnast innihaldi á hlutum horfum við meira á útlitið. Og það er algjör synd, því eins og með bækurnar þá er oft ekki allt sem sýnist. Það sem er hins vegar verra við þetta, er hvað við eyðum miklu púðri í útlit á okkur sjálfum og lífi okkar. Hvernig við lítum út. Hvernig hús og bíl við eigum. Hvernig starfi við sinnum. Hvernig instagram síðan okkar lítur út. Við hömumst við að gera kápuna á lífi okkar sem flottasta til að vekja eftirtekt en engin orka fer í innihald bókarinnar. Sem er í rauninni öfugsnúið þar sem innihald bókarinnar er það sem skiptir öllu máli þegar upp er staðið. En þegar maður fær nánast einungis hrós sem tengjast ytri hliðinni á manni og lífi manns er ekki skrítið að þróunin fari í þessa átt.

Það er hins vegar alls ekki eftirsóknarvert að líta vel út en að vera alveg flatur karakter sem líður illa. Við erum alltaf að læra betur og betur að útlit og veraldlegir hlutir færa okkur ekki hamingju. Þó að ég skoði instagram síðu hjá einhverjum sem virðist eiga frábært líf, fullt af vinum, ferðast reglulega og upplifir ótrúlegustu hluti er manneskjan ekki endilega hamingjusöm. Ég get í rauninni ekkert vitað um það án þess að kynnast manneskjunni en það er auðvelt að hallast að því út frá síðu einstaklingsins. Og fyrir suma er það nóg í bili. Maður fær eitthvað út úr því þegar líf manns hljómar frábærlega: ,,Já, ég er bara að klára stúdentinn og ætla svo í verkfræði í HR. Er síðan búið að vera brjálað að gera í vinnunni á kaffihúsinu en ég passa að hafa alltaf tíma til að skella mér í ræktina. Djamma síðan reglulega með vinunum og við stelpurnar erum oft með kósý kvöld saman”. Þetta gæti verið tvítug manneskja sem hljómar fyrir að hafa það allt. En hvernig líður henni? Hefur hún tíma til að slaka á? Hefur hún tíma til að kynnast nýju fólki eða prófa nýja hluti? Nær hún að sofa og borða reglulega? Þó þetta hljómi vel á blaði og margir myndu kalla þessa manneskju duglega þá er þetta bara kápan á lífi hennar.

Helsta ástæðan fyrir þessum hugleiðingum mínum er að minna fólk á að dæma ekki af útliti. Þó að einhver sé feitur borðar hann ekki endilega hamborgara í öll mál. Þó að stelpa sé sæt og mjó er hún ekki endilega vinsæl meðal stráka. Þó að karlmaður keyri um á Range Rover er hann ekki endilega ríkur. Þó að fólk eigi fullt af vinum á netmiðlum segir það ekki endilega til um fjölda vina í raunveruleikanum. Passaðu bæði að dæma hvorki aðra né sjálfa/n þig af kápunni. Það hugsa nefninlega margir að maður sjálfur sé glataður miðað við alla hina, en þú getur ekki miðað þig við aðrar manneskjur þegar þú veist ekki allt sem er á bak við þær. Mig langar líka að minna fólk á að gefa sjálfum sér tíma. Sinna sínum eigin þörfum og gera eitthvað sem veldur hamingju. Það skiptir miklu meira máli heldur en að hamast í ræktinni alla daga vikunnar til að fá kúlurass. Enda ef þú hugsar um það, þegar þú deyrð verður líklega frekar hugsað um þig sem persónu en hvernig rassinn þinn leit út. Og flestir vilja að munað verði eftir manni sem yndislegri manneskju. Það er undir okkur komið að vinna að því gegnum lífið.

*I am more than what you see*

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó