Druslupepp á Græna Hattinum í kvöld – Frítt inn

Mynd frá facebook-viðburðinum; Druslupepp.

Eins og Kaffið fjallaði um í vikunni þá verður hin árlega Drusluganga haldin laugardaginn næstkomandi, 29. júlí. Í ár hefur Druslugangan, og dagskráin í kringum hana, aldrei verið stærri í sniðum. Þetta byrjar allt með svokölluðu Druslupeppi á Græna Hattinum í kvöld þar sem fjölmargir listamenn og skemmtikraftar stíga á svið, síðar í vikunni verða einnig listasýningar á víð og dreif um bæinn og í framhaldinu er aðal viðburðurinn, Druslugangan, á laugardaginn.
Druslugangan og dagskráin í kringum hana er ætluð til þess að opna umræðuna um kynferðisofbeldi og sýna þolendum þess stuðning og styrk, eins og segir í viðburðinum:

,,Miðvikudagskvöldið 26. júlí verður í fyrsta sinn haldið druslupepp á Akureyri! Stöndum með okkur sjálfum, sýnum þolendum kynferðisofbeldis samstöðu, hittumst, hlustum á tónlist, spjöllum, dönsum og peppumst fyrir Druslugönguna á Akureyri!“

Aldurstakmark á viðburðinn er 18 ára en hins vegar er aðgangseyrir frír. Meðal þeirra sem stíga á svið verða DJ Vélarnar, KÁ-AKÁ, Gróa, Una Stef og uppistandarinn Karen Björg. Fólk er hvatt til þess að mæta og gefa skít í kynferðisofbeldi með því að skemmta sér og fjölmenna viðburðinn.

Nánari upplýsingar um viðburðinn má sjá hér. 

Sjá einnig:

Druslugangan á Akureyri aldrei stærri í sniðum

VG

UMMÆLI

Sambíó