Ásgeir Jóhann Kristinsson er 25 ára Akureyringur og útileguáhugamaður sem hefur nokkur nytsamleg ráð fyrir þá sem ætla sér í útilegu í sumar. Ásgeir segir í samtali við Kaffið að það sé ekkert verra en að vera illa undirbúinn fyrir útileguna og því sé bráðnauðsynlegt að hafa þessi 5 atriði á hreinu áður en lagt er í hann. ,,Það getur skemmt annars góða útilegu ef maður er ekki með þessa hluti á hreinu,“ segir Ásgeir.
Nr. 1
Ásgeir segir það skipta öllu máli að vera vel klæddur. Maður veit aldrei hverju íslenska veðrið tekur upp á og þó svo að veðurspáin sé góð getur hún breyst á örskotsstundu. Þess vegna er mikilvægt að hafa með sér hlý föt, vettlinga, ullarsokka, teppi o.þ.h. til þess að verða ekki kalt. Ásgeir hefur orð á því að ef manni verður kalt í útilegu sé þetta bara búið, þú skemmtir þér aldrei vel ef þú ert að drepast úr kulda.
Nr. 2
Að vera vel skóaður er lykilatriði samkvæmt Ásgeiri. Það gerir góða útilegu slæma að verða blautur í fæturnar og verða kalt á tánum. Fyrir sniðuga ferðalanga væri líka sterkur leikur að taka með sér auka par af skóm og eiga til skiptanna, skildi maður blotna.
Nr. 3
Gott föðurland er undirstaðan (bókstaflega) að góðri útilegu, segir Ásgeir. Það þýðir ekkert að skella sér í eitthvað drasl sem vill kalla sig föðurland, það þarf að vera alvöru. Það heldur kroppnum heitum og þér glöðum.
Nr. 4
Eitt mikilvægasta atriðið er þó að vera vel vökvaður og upplifa aldrei þorsta í útilegunni. Ásgeir segir það ekki skemmtilegt að taka með sér of lítið af drykkjum, það verði mörgum útilegum að falli.
Nr. 5
Það er ýmislegt sem getur farið úrskeiðis í útilegum og þá sérstaklega á Íslandi með veðurskilyrði og annað.
,,Mikilvægasta atriðið af þessum öllum er að pakka góða skapinu með í útileguna,“ segir Ásgeir. Það eru engir vankantar sem að góða skapið getur ekki sigrað og því skelfilegt að gleyma að taka það með.
UMMÆLI