NTC

Topp 10 – Það versta við Akureyri

Að búa á Akureyri hefur fjölmarga kosti, enda Akureyri að nánast öllu leyti frábær bær. Þeir sem hér búa vita samt að það er rosalega margt sem má tuða yfir. Enda er það bæjaríþrótt Akureyringa að tuða. Kaffið setti saman lista yfir verstu hlutina við Akureyri og erum við handviss um að allir geti verið sammála þessu. Hlutirnir eru ekki eftir neinni sérstakri röð, enda allir jafn slæmir.

1. Lagaval Pósthúsbarsins
Það skilur enginn ráðgátuna á bakvið lagaval Pósthúsbarsins. Það eru yfirleitt mismunandi menn að þeyta skífum en einhvern veginn rata sömu lögin alltaf á gólfið. Euphoria, sem sló í gegn í Eurovision fyrir 6 árum síðan og svo lagið Cotton Eyed Joe, sem var fyndið í fyrstu tvö skiptin sem maður heyrði það en er nú orðin pínleg sönnun þess að þú stundar Pósthúsbarinn of mikið. Lagið Jump Around er líka fastur liður hjá Pósthús, þegar allir sem þar eru fara að hoppa hæð sína með kaflanum „jump, jump, jump“, öllum til mikillar gleði.
Þetta endar allt með því að þeir sem heimsækja Pósthúsbarinn heita því að koma þangað aldrei aftur vegna lagavalsins, auðvitað þangað til að næsti laugardagur rennur upp. Vítahringur akureyrska djammarans.

2. Strætó
Akureyringar eru heldur ósáttir við strætókerfið á Akureyri og umræður um hversu seinn hann er eða leiðirnar asnalegar, er aldrei langt undan. Sumum kann að finnast það skrítið, að Akureyringar kvarti yfir þjónustu sem er frí, en það gerist ekki mikið týpískara en það. ,,Leyfðu mér bara að borga fokking 200 kr. í strætó og gerið þetta þá almennilega“, heyrðist frá einum reiðum Akureyring sem stundar strætó grimmt

3. Naustahverfi
Það versta sem Akureyrskur guð hefur skapað er þetta hverfi. Hver ratar inn í þessu völundarhúsi? Og það sem meira er, það getur enginn skotist í Naustahverfið í 5 mínútur. Það mun alltaf taka þig lágmark 10 mínútur að fara þangað, jafnvel þó að þú haldir þig bara inn á aðalgötunni sem liggur í asnalegum bylgjum til þess að þú veltir bílnum örugglega á veturnar.

4. Opnunartímar í ræktinni
Hraustir Akureyringar æsa sig mjög yfir opnunartímum líkamsræktastöðva um helgar og á hátíðisdögum. Svo virðist sem eigendur stöðvanna geri ráð fyrir því að fólk vilji slappa af um hátíðirnar og vera timbraðir á sunnudögum, því sé ekkert vit í því að hafa opið nema milli 10 og 13.

5. Hvað á að borða?
Akureyringar kvarta sáran undan því að ekkert sé til að borða á Akureyri. Það er alltaf sama krísan að finna sér hádegismat því að úrvalið er svo andskoti lítið. Nú hefur stöðum sem bjóða upp á mat á Akureyri fjölgað úr 40 í 45.

6. Slúður
Akureyri er tiltölulega lítill bær og það fer í taugarnar á mörgum hversu hratt boð berast manna á milli, þá sérstaklega nýjustu fréttir um hinn og þennan og hvernig sögurnar breytast, aðalpersónunum til mikillar mæðu. Það kannast allir við það þegar Sigga fór heim með Gunna Sæm í síðuhverfið eina helgina, en á brekkunni heyrðist það að Kjartan hefði líka farið með þeim og deilt með þeim nóttinni, í tjaldi, upp á Hömrum. Svo varð Sigga líka ólétt af tvíburum. Það skilur samt enginn af hverju hún hefur ekki fætt þá ennþá, 5 árum síðar. Svo æfir hún crossfit með bæði Gunna og Kjartani í dag.

7. Lokaböll í Sjallanum
Sannir Akureyringar hafa sótt mörg lokaböll Sjallans í blindni. Fyrir sennilega 6 árum var það tilkynnt fyrst að það ætti að rífa Sjallann og allir flykktust að til að kveðja Sjallann í hinsta sinn. Páll Óskar hefur t.a.m. núna kvatt Sjallann sex sinnum. Akureyringar hafa verið illa blekktir með sögunni endalausu og stunda hann enn.
Lygavefur Sjallans er enn í fullum gangi en nýjustu fréttir herma að það eigi að rífa hann fljótlega… eða hvað?

8. Skipulag íþróttamannvirkja
Nánast öll íþróttamannvirki bæjarins eru aðeins hálfklárað verk eða virkilega misheppnuð í hönnun. Sem dæmi má nefna að Boginn hefur ekkert klósett og glænýtt gervigrasið er sagt handónýtt. Stúkan á Akureyrarvelli er bara einhversstaðar og er þaklaus líkt og stúkan á Þórsvelli. Yngri flokkar Þórs í handbolta leika heimaleiki sína í Síðuskóla en vegna plássleysis þyrfti helst að setja reglur um að aðeins eitt foreldri gæti fylgt hverju barni á kappleikjum. Hin goðsagnakennda Íþróttahöll við Skólastíg hefur að geyma verstu vallarklukku landsins og áfram mætti lengi telja.

9. Að fara erlendis
Að fara til útlanda er vesen ef þú býrð á Akureyri. Vissulega er komið flug frá Akureyri til Keflavíkur en það er bara enn önnur leið til þess að komast á milli sem kostar alveg jafn mikið og að keyra, ef ekki meira. Sumir eru hins vegar heppnari en aðrir og næla sér stundum í beint flug frá Akureyri og heim aftur. Það skemmtilegasta við að koma heim er að hamstra í fríhöfninni en það á ekki við á Akureyri. Fríhöfnin þar er í gamalli, tveggja fermetra skúringakompu sem býður upp á tvö karton af sígarettum og smá viskí kannski. Happy shopping.

10. Að hjóla á Akureyri
Þetta er skelfing. Nú fyrst eru að verða komnir alveg nokkrir hjólastígar sem er kannski snilld en á móti kemur að Akureyri er reist á brekku þannig að þú ert alltaf að fara að svitna, jafnvel í 10 stiga frosti. Það er kannski plús ef þú ert að fara út að hjóla sem líkamsrækt en ef þú ætlar að nýta þér hjólið þitt sem faratæki, t.d. til og frá vinnu, þá er leiðin niður eftir alltaf frábær en leiðin heim, eftir langan vinnudag, helvíti. Ég tala nú ekki um ef þú ferð upp Gilið og ert í bókstaflega 90% halla. Í jakkafötum. Á hjóli.

 

Sjá einnig

Topp 10 – Ástæður þess að Akureyringar eru leiðinlegir

Topp 10 – Ofmetnustu hlutir í heimi

Topp 10 – Aðstæður sem ég höndla ekki

Topp 10 – Ofnotuðustu frasarnir á Instagram

Topp 10 – verstu lög Íslandssögunnar

Topp 10 – Verstu íslensku sjónvarpsþættirnir

Topp 10 – Hlutir sem leiðinlegt fólk segir

Topp 10 – Vanmetnustu hlutir í heimi

Topp 10 – Vörur sem ég sakna

Topp 10 – Frasar sem ég hata

Topp 10 – Tilgangslausustu hlutir í heimi

 

VG

UMMÆLI

Sambíó