Framsókn

Finna ekki fyrir fordómum á Akureyri

Stephany Mayor. Mynd: Twitter/Haraldur Ingólfsson

„Frá byrjun fannst okkur eins og við værum metnar fyrir vinnu okkar hérna, sem fótboltaleikmenn, án fordóma“ segir Bianca Sierra leikmaður Þór/KA í viðtali við New York Times. Hún býr á Akureyri ásamt kærustu sinni Stephany Mayor sem spilar einnig fyrir Þór/KA.

Á Íslandi eru þær lausar við fordóma vegna kynhneigðar þeirra en það hefur ekki alltaf verið raunin. Í heimalandi þeirra, Mexíkó, eru miklir fordómar gagnvart samkynhneigðum. Bianca og Stephany eru báðar leikmenn í mexíkóska landsliðinu en þar hafa þær þurft að glíma við þjálfara sem skipaði þeim að fela samband sitt opinberlega. Þegar þær komu út úr skápnum á samfélagsmiðlum í fyrra fengu þær ógeðslegar athugasemdir og hótanir frá fólki. Þær segja að athugasemdirnar hafi eingöngu verið á spænsku. „Það sem kom mest á óvart var að ljótu athugasemdirnar voru flestar á spænsku, á ensku fengum við bara fallegar athugasemdir,“ segir Sierra

Bianca Sierra. Mynd: Twitter/Haraldur Ingólfsson

Sierra ólst upp í Bandaríkjunum ásamt foreldrum sínum sem ráku veitingahúsakeðju. Mayor ólst upp í Mexíkó borg. Þær hittust fyrst þegar þær spiluðu saman fyrir yngri landslið Mexíkó og mynduðu sterk tengsl. Í landsliðsverkefni fyrir A landslið Mexíkó árið 2013 fór rómantíkin að blómstra. Mayor segir að sú staðreynd að Sierra hafi alist upp í Bandaríkjunum þar sem samkynhneigð er litin öðrum augum en í Mexíkó hafi hjálpað sér mikið.

,,Í Mexíkó er menningin þannig að það er ekki talað um svona hluti, þú mátt ekki opinbera svona sambönd. Það var auðvelt að opna sig með henni því hún var mjög örugg og vissi hvað hún vildi. Það hjálpaði mikið.“

Sandra Stephany Mayor fagnar marki með mexíkóska landsliðinu

Mayor og Sierra gáfu ekki kost á sér í mexíkóska landsliðið í febrúar í fyrra vegna landsliðsþjálfarans en eru núna komnar aftur í hópinn undir nýjum þjálfara og mæta Svíþjóð í vináttuleik um helgina. Þær voru báðar í úrvalsliði fyrri umferða í Pepsi deild kvenna.

Þær hafa fundið griðarstað á Akureyri þar sem þær eru orðnar stjörnur. Mayor gekk til liðs við Þór/KA síðasta sumar og Bianca kom til liðsins fyrir þetta sumar. Halldór Jón Sigurðsson þjálfari liðsins segir að þær séu báðar mikilvægir leikmenn fyrir liðið og það sé gott að þær séu hamingjusamar.

Viðtalið ítarlega við Sierra og Mayor úr New York Times má lesa í heild sinni með því að smella hér.

Sjá einnig:

Tvær úr Þór/KA í mexíkóska landsliðinu sem mætir Svíþjóð í júlí

 

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó