Lögreglan á Norðurlandi eystra hafði afskipti af 87 ökumönnum vegna hraðaksturs í síðustu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebooksíðu lögreglunnar.
Þá voru 15 umferðaróhöpp skráð og þar af eitt slys þar sem ökumaður lét lífið. Lögreglan vekur sérstaka athygli á því að margir mældust á miklum hraða en sá sem ók hraðast var á 217 km hraða. Sá ökumaður var tekinn á mótorhjóli sem mælt var á Eyjafjarðarbraut eystri að kvöldi laugardags.
„Breyting virðist vera að eiga sér stað til hins verra í þessum efnum og skorum við því á ökumenn að gefa þessum þætti meiri gaum og fylgja þeim reglum sem gilda um ökuhraða í hvívetna svo allir komist heilir á áfangastað því of hraður akstur er dauðans alvara,“ segir á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
UMMÆLI