Í morgun hófst á Akureyri formleg dagskrá á norrænum tengiliðafundi bæjarstjóra og pólitísks forsvarsfólks Akureyrar, Álasunds í Noregi, Lathi í Finnlandi, Randers í Danmörku og Västerås í Svíþjóð. Dagurinn hófst með göngutúr fundarmanna frá hótelinu þar sem þeir dvelja niður í Ráðhús þar sem Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri tók á móti hópnum.
Að lokinni stuttri kynningu á Akureyri voru áherslur bæjarins í átt að kolefnishlutleysi kynntar og farið með hópinn í svokallaðan „Grænan túr“ sem hefur verið í þróun hjá Vistorku. Klukkan 14.15 hófst fundur í bæjarstjórnarsalnum þar sem fjallað er um skipulagsmál í sveitarfélögunum, umhverfismál, norrænt ungmennasamstarf og framtíð vinabæjasamstarfsins á breiðum grundvelli.
Aðrir liðir á dagskrá fulltrúanna frá norrænu vinabæjunum eru meðal annars heimsókn til Hríseyjar og hvalaskoðun á Eyjafirði.
Akureyrarbær hefur um árabil lagt áherslu á að vera virkur í alþjóðlegu samstarfi. Það starf byggist m.a. á þeim vinabæjasamskiptum sem þegar eru fyrir hendi og vel hafa gengið, á samstarfi á norðurslóðum og á þátttöku í tímabundnu starfi og verkefnum. Leiðarljós í erlendu samstarfi er að læra af samskiptum við aðrar þjóðir, miðla reynslu og stuðla að því að ný viðhorf, vinátta og skilningur berist og eflist milli þjóða, sveitarfélaga og íbúa þeirra. Megináhersla er lögð á vinabæjasamskipti sem snúa að sveitarstjórnarmálum, málefnum norðurslóða, jafnrétti og umhverfismálum.
UMMÆLI