Íslenska kvennalandsliðið er á leiðinni á lokamót EM sem fram fer í Hollandi í næsta mánuði og í gær tilkynnti Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, 23 manna hóp sem mun verja heiður Íslands í Hollandi í sumar.
Sjá einnig: Sandra María Jessen fer með á EM
Stærstu lið landsins eru flest á höfuðborgarsvæðinu og á eitt þeirra, Breiðablik, flesta fulltrúa í hópnum eða alls fimm leikmenn. Næst koma Stjarnan og Valur með þrjá leikmenn hvort en Þór/KA, KR og ÍBV eiga öll einn fulltrúa. Hinir níu leikmennirnir leika með erlendum félagsliðum.
Þegar bakgrunnur landsliðskvennanna er skoðaður kemur í ljós að tæplega helmingur hópsins ólst upp á landsbyggðinni eða 10 af 23 leikmönnum. Þegar litið er til þess hjá hvaða félögum landsliðskonurnar ólust upp hjá stendur Þór best að vígi allra liða á Íslandi þar sem þrír Þórsarar eru í hópnum en þær Sandra María Jessen (Þór/KA), Arna Sif Ásgrímsdóttir (Valur) og Rakel Hönnudóttir (Breiðablik) fóru allar í gegnum unglingastarf Þórs og tóku sín fyrstu skref í meistaraflokki með sameinuðu liði Þórs/KA; Rakel reyndar með sameinuðu liði Þórs/KA/KS.
UMMÆLI