NTC

25 viðburðir á Jónsmessuhátíð sem hefst á föstudag

Mynd: Akureyri.is

Jónsmessuhátíð á Akureyri er 24 tíma hátíð sem hefst kl. 12 á föstudag og stendur til klukkan 12 á laugardag.  Á dagskránni eru 25 viðburðir út um allan bæ og fjölbreytnin er í fyrirrúmi. Þeir sem hafa ekki hug á að velta sér upp úr dögginni geta heimsótt Sundlaug Akureyrar en þar verður opið til kl 02. Gestir Sundlaugarinnar geta m.a. tekið þátt í zumba í lauginni kl 20, kl. 21.30-00.30 verður Samflot í innilauginni með tónlist og tilheyrandi og á milli kl 01-02 verður tilraunin tónlist í vatni. Klukkan 8 á laugardagsmorguninn verður heimspekipottur þar sem Félag áhugamanna um heimspeki á Akureyri stjórnar umræðum um stjórnmál og stefnuleysi.

Listagilið verður lifandi á Jónsmessuhátíð. Valdís Lilja Valgeirsdóttir og félagar skreyta Gilið, hið svokallaða Listamannahlaup kemur við í Listagilinu en þá mun listafólk í miður góðu formi reyna að hlaupa stutta leið með hlaup í hendi sem búið verður til fyrr um daginn í hlaupsmiðju. Listahópurinn RÖSK verður á svæðinu við að undirbúa sýningu morgundagsins, sýningin I must be happy opnar í Mjólkurbúðinni, það verður vasaljósaleiðsögn um Sumarsýningu Listasafnsins á Akureyri, Stjörnustríðsmyndamaraþon og síðasti viðburður Jónsmessuhátíðar verður frá kl 11-12 á laugardaginn en þar er jóga og slökun í Ketilhúsinu.

Í Lystigarðinum á Café Laut leiða saman hesta sína tónlistarfólkið Lára Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson og leikkonan Sesselía Ólafsdóttir og er yfirskrift dagskrárinnar „Að verða á í Jónsmessunni!“ Þar verður tónlist blandað saman við þjóðsögur. Í Davíðshúsi tekur Valgerður H. Bjarnadóttir á móti gestum og les upp úr verkum skáldsins og Kristín Aðalsteinsdóttir býður fólki í göngu og spjall um hluta  Innbæjarins og byggir gangan á bók Kristínar; Innbær. Húsið og fólkið.

Þetta er aðeins brot af því sem hægt verður að njóta á 24 stunda Jónsmessuhátíð á Akureyri. Nánari upplýsingar er að finna á facebooksíðu Jónsmessuhátíðarinnar.

Sambíó

UMMÆLI