38% aukning umsókna við Háskólann á Akureyri

Háskólinn á Akureyri

Alls sóttu 1.615 manns um skólavist við Háskólann á Akureyri fyrir skólaárið 2017-2018, sem er met í sögu skólans. Um er að ræða 38% fjölgun frá árinu áður en þar skipar lögreglufræðin stóran sess. Umsóknirnar eru 443 fleiri en í fyrra. Þar af eru 232 umsóknir um lögreglunám en séu þær reiknaðar frá er aukningin 18%.

Flestir sóttu um viðskiptafræði eða 263. 255 sóttu um nám í hjúkrunarfræði og eins og komið hefur fram sóttu 232 um nám í lögreglufræði. 156 hyggja á nám í sálfræði á komandi misseri. Utan þessa er aukning umsókna mest í meistaranámi í lögfræði; á síðasta misseri sóttu 9 um en nú hyggjast 33 stunda námið við HA. Aðeins hallar á umsóknir í kennarafræði, en þar er fækkun um 11%.

Á síðasta ári var allt grunnnám í boði sem sveigjanlegt nám. Þetta er sérstaða Háskólans á Akureyri sem hefur löngum verið í fararbroddi í fjarnámi. Nú er því svo háttað að það skiptir ekki lengur máli hvort námið er stundað á staðnum eða annars staðar frá, allir fyrirlestrar eru teknir upp og verkefnum er skilað rafrænt á kennsluvef. Nemendur geta kosið að koma í tíma og margir nýta sér þá persónulegu þjónustu að hitta á kennara sína þegar þörf er á. Tvisvar til þrisvar á misseri koma nemendur svo saman í lotur á Akureyri þar sem mikið er lagt upp úr verkefnavinnu, verklegri þjálfun og samtölum.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, er mjög ánægður með þennan fjölda umsókna og er stoltur af þeim glæsilega árangri sem starfsfólk háskólans hefur náð á síðustu árum. Er þetta þriðja árið í röð þar sem veruleg fjölgun nemenda verður við skólann. Hann bendir hinsvegar á að svona mikil fjölgun nemenda setji enn frekari byrðar á starfsmenn skólans: „Þegar við tökum á móti nýnemum í haust verður að tryggja að við getum veitt sömu persónulegu þjónustu og við höfum veitt fram að þessu. Skólinn er kominn mjög nærri þeim nemendafjölda sem við viljum hafa til lengri tíma litið og jafnvel spurning hvort, eða frekar hvenær, taka verði upp aðgangstakmarkanir inn í háskólann í heild sinni.“ Rektor segir HA vilja geta stutt nemendur sína til náms og góðra verka þannig að öllum nemendum HA líði vel og að þeim finnist þeir tilheyra háskólasamfélaginu. „Umfram allt er þetta þó staðfesting á því að nám við Háskólann á Akureyri er eftirsótt enda kröfuhart nám sem byggir á sterkum fræðilegum grunni í persónulegu námsumhverfi,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Á árinu fagnar Háskólinn á Akureyri 30 ára afmæli en engin háskólastofnun hefur vaxið eins hratt og hann. Fyrir tíu árum voru nemendur undir 1.000 en nú eru þeir vel yfir 2.000. Frá upphafi hefur Háskólinn á Akureyri brautskráð rúmlega 4.000 nemendur.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó