Fyrsti almenningsvagn í sögu Grímseyjar kom til eyjarinnar fyrir rúmri viku. Vélaverkstæði Sigurðar Bjarnasonar ehf. festi kaup á strætisvagninum sem tekur 23 farþega í sæti. Hugmyndin er að hafa samstarf við ferðaþjónustuaðila í eyjunni og bjóða upp á sætaferðir fyrir ferðamenn og gesti, m.a. út að vita á suðurenda eyjarinnar og eins eitthvað norðureftir í átt að heimskautsbaugnum.
Engin rúta eða almenningsfarartæki eru í Grímsey og er þetta því kærkomin búbót við þá ferðaþjónustu sem fyrir er. Í sumar er gert ráð fyrir að um 29 skemmtiferðaskip leggist að bryggju í Grímsey. Daglegt flug er frá Akureyri til eyjarinnar auk þess sem ferjan Sæfari siglir fimm daga vikunnar í stað þriggja áður. Því má búast við mikilli aukningu ferðamanna. Í dag er einmitt skemmtiferðaskip við Grímsey og strætisvagninn því á leið í sína fyrstu skipulögðu ferð með ferðamenn. Hægt er að fræðast um Grímsey á vefsíðunni www.grimsey.is.
UMMÆLI