Íþróttafélagið Þór og SaltPay hafa gert með sér tveggja ára samning um að næstu tvö árin muni Þórsvöllur bera nafnið SaltPay-völlurinn. Þetta kemur fram á vef Þórs.
Þar segir að SaltPay sé leiðandi fjártæknifyrirtæki í þróun og hagnýtingu lausna á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar með yfir 40 ára reynslu á því sviði og annast m.a. færsluhirðingu vegna Mastercard og Visa.
Er þetta í fyrsta sinn sem Þór gerir slíkan samning, þ.e. að selja nafn á völlinn. Næstu tvö sumrin fara heimaleikir Þórs og Þór/KA fram á SaltPay-vellinum.
„Það eru miklir umbótatímar að eiga sér stað hjá SaltPay um þessar mundir en við breyttum nýlega nafni okkar úr Borgun, sem mörgum er kunnugt, í SaltPay. Með breyttum áherslum viljum við styrkja og styðja vel við bakið á íþróttastarfsemi á Íslandi. Það er okkur því mikið gleðiefni að undirrita þennan samning við Þór og fá tækifæri til að sýna vilja okkar í verki og er þetta fyrsta skref okkar í þeirri vegferð sem koma skal“ segir Gísli Páll Helgason viðskiptastjóri SaltPay á vef Þór.
Reimar Helgason framkvæmdastjóri Þórs kvaðst vera mjög ánægður með þetta samstarf við SaltPay og þá aðila sem þar eru. „Við höfum áður fengið tilboð í nafn á völlinn, sem var ekki tekið þannig að við værum ekki að skrifa undir hér í dag ef við værum ekki ánægð með þennan samning sem var verið að undirrita.“
Það voru þeir Reimar Helgason framkvæmdastjóri Þórs og Gísli Páll Helgason viðskiptastjóri SaltPay sem undirrituðu samninginn.
UMMÆLI