Spænski knattspyrnumaðurinn Juan Mata er staddur hér á landi um þessar mundir en þessi 29 ára gamli miðjumaður hefur unnið flesta af stærstu knattspyrnutitlum heims og er samningsbundinn einu stærsta knattspyrnuliði heims, Manchester United. Mata er nú í sumafríi frá boltanum og hefur eytt síðustu dögum á Íslandi.
Sjá einnig: Juan Mata fór út að borða á Strikinu – Mynd
Í samtali við Kaffið sagðist eigandi Striksins ekki vilja tjá sig mikið um einstaka viðskiptavini en sagði þó að starfsfólkið hafði orð á því að Mata hefði verið mjög viðkunnanlegur og kurteis, þar sem hann snæddi með fjölskyldu sinni á laugardaginn.
Fjölmargir aðdáendur kappans flykktust niður í miðbæ á laugardagskvöld þegar spurðist út að Mata sæti að snæðingi á Strikinu og hafa margir birt myndir af sér með Mata.
Mata nýtti gærdaginn til þess að skoða Mývatn og skellti sér meðal annars í Jarðböðin þar sem hann hitti fyrir einn af 10 eftirsóttustu piparsveinum Akureyrar. Fór vel á með þeim félögum eins og sjá má hér fyrir neðan.
— Juan Mata García (@juanmata8) May 28, 2017
Þessa mynd birti Mata á Twitter í gær.
Mata er ekki aðeins þekktur fyrir snilli sína á knattspyrnuvellinum því hann hefur getið af sér gott orð sem bloggari og heldur hann úti vefsvæðinu juanmata8.com þar sem hann birtir reglulega pistla og heldur sér þannig í góðu sambandi við stuðningsmenn sína.
Nýjasta bloggfærsla er skrásett í dag og má því ætla að hún hafi verið skrifuð frá Íslandi en Mata minnist þó ekki á dvöl sína á Íslandi í færslunni þar sem hann fer yfir nýafstaðið tímabil í boltanum.
UMMÆLI