Aðstandendur líkamsræktarstöðvarinnar Norður á Akureyri auglýstu stóra útiæfingu fyrir iðkendur sína á bílaplaninu við Glerártorg í dag. Æfingin átti að hefjast klukkan 11:15. Rapparinn Halldór Kristinn ætlaði að halda skemmtiatriði og glaðningur frá Nocco átti að vera í boði. Þeim sem fannst þetta allt saman of gott til að vera satt höfðu rétt fyrir sér þar sem að í dag er 1. apríl og þetta var aprílgabb.
Það voru þó alls ekki allir sem áttuðu sig á því og upp úr klukkan 11 var fólk farið að láta sjá sig á bílaplaninu við Glerártorg. Þar beið þeirra ekkert nema tilkynning frá Norður, á auglýsingaskiltinu við Glerártorg, um að þau hefði fallið fyrir aprílgabbi.
Björk Óðinsdóttir, ein af eigendum Norður, segir að í gær hafi verið tekin ákvörðun um að gabba liðið smá en að hún hafi ekki búist við því að ná svona mörgum. Hún segir að áhuginn á þessu muni mögulega þýða það að æfingastöðin bjóði upp á eitthvað svipað, þegar samkomutakmarkanir verði rýmkaðar.
„Þetta er greinilega eitthvað sem margir hafa áhuga á. Þó það megi ekki framkvæma þessa hugmynd í dag vegna ástandsins og samkomutakmarkanna þá munum við klárlega reyna aftur þegar það má,“ segir Björk við Kaffið.is.
UMMÆLI