Í dag var formlega opnuð ný íbúagátt á heimasíðu Akureyrarbæjar um leið og kynntar voru miklar endurbætur á heimasíðunni og nýtt útlit. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri opnaði nýju heimasíðuna og sagði nokkur orð um þá vinnu sem liggur að baki.
Þá var íbúagáttin einnig kynnt en Akureyrarbær skrifaði í byrjun árs undir samning um að innleiða OnePortalCitizen íbúagátt fyrir heimasíðuna. Þar geta bæjarbúar sótt rafrænt um ýmsa þjónustu á vegum bæjarins og fylgst með afgreiðslu erinda sinna. Meðal annars verður hægt að sækja um byggingarlóð, lækkun fasteignaskatts fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, heimaþjónustu og skammtímavistun. Fleiri umsóknir munu síðan bætast við í kerfið á næstu mánuðum. Íbúagáttin er snjalltækjavæn og eiga umsóknareyðublöðin að skalast vel niður á snjallsíma og spjaldtölvur.
Fimm manna vefnefnd hefur síðustu mánuði unnið að endurbótum á heimasíðunni Akureyri.is í samstarfi við Stefnu Hugbúnaðarhús með það fyrir augum að aðlaga síðuna að síaukinni notkun snjallsíma og spjaldtölva um leið og horft er til þess að hún þjóni fyrst og fremst hagsmunum bæjarbúa og geri þeim kleift að finna það sem leitað er að á einfaldan og aðgengilegan hátt.
UMMÆLI