NTC

Fimm ára deildir í grunnskóla Akureyrar?

Leikskólinn Hlíðarból.

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar þriðjudaginn 25. apríl sl. var ákveðið að skoða til hlítar leiðir sem áður hafa verið ræddar til að nýta húsnæði grunnskóla Akureyrarbæjar og fagþekkingu leikskólastigsins með því að setja upp tilraunaverkefni með stofnun 5 ára deildar í húsnæði grunnskóla með sambærilegum hætti og gert hefur verið með góðum árangri í Naustaskóla.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri segir að góð samstaða hafi myndast meðal bæjarfulltrúa á bæjarstjórnarfundinum um bókunina og að fara þessa leið.

„Við leitum allra leiða til að leysa þetta verkefni sem að mörgu leyti er jákvætt þar sem ástæða þess er m.a. mikil flutningur barnafjölskyldna til Akureyrar. Leikskólastarf og þjónusta við barnafjölskyldur hefur alltaf verð forgangsmál hjá bæjarfélaginu en það er eðlilegt að svona verkefni komi upp annað slagið enda fer það eftir íbúaþróun og fjölda barna í árgöngum. Ef það er hægt að efla enn frekar samstarf leik- og grunnskóla, t.d. með því að færa elstu nemendur leikskóla inn í grunnskólahúsnæði án verulegs kostnaðar, þá er sjálfsagt að reyna það,“ segir Eiríkur Björn í samtali við Akureyri.is

Bókun bæjarstjórnar er eftirfarandi og var samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum:

Bæjarstjórn Akureyrar hefur ákveðið að skoða til hlítar leiðir sem áður hafa verið ræddar til að nýta húsnæði grunnskóla Akureyrarbæjar og fagþekkingu leikskólastigsins með því að setja upp tilraunaverkefni með stofnun 5 ára deildar í húsnæði grunnskóla með sambærilegum hætti og gert hefur verið með góðum árangri í Naustaskóla. Með þessu opnast leiðir til að innrita fleiri börn í leikskólana. Þessari vinnu verður flýtt þannig að hægt verði að meta kostnað við aðgerð sem þessa og taka ákvörðun sem fyrst. Það er von okkar að víðtæk sátt náist um þessa leið.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó