KA menn hefja leik í Pepsi deild karla þann 1. maí næstkomandi þegar liðið á útileik gegn Breiðablik í Kópavogi. Þetta er í fyrsta skipti í 12 ár sem KA tekur þátt í efstu deild karla á Íslandi eftir sigur í Inkasso deildinn í fyrra. Þetta verður einnig í fyrsta skipti sem að stuðningsmannasveit KA, Schiötharar taka þátt í efstu deild. Kaffið.is heyrði hljóðið í Birki Erni Péturssyni formanni sveitarinnar.
„Stemmingin fyrir sumrinu er mjög góð og allir stuðningsmenn sem ég hef talað við eru mjög spenntir fyrir mótinu. Það er orðið alltof langt síðan KA átti karlalið í efstu deild í fótbolta og auðvitað allir spenntir fyrir því að vera komnir þangað á nýjan leik.“ segir Birkir.
Nafnið Schiötharar vísar til þess að Knattspyrnufélagið var stofnað á heimili þeirra Margrétar og Axels Schiöth. Schiötharar hafa vakið athygli frá stofnun sveitarinnar á vordögum ársins 2015 og hafa síðan þá verið duglegir að mæta á leiki KA liðsins. En hvernig verður fyrirkomulagið á stóra sviðinu?
„Það ræðst pínu eftir stemningu og mætingu. Það eru samt nokkrir hlutir sem við höldum fast í. Við reynum að sjálfsögðu að vera í gulu eða bláu á leikjum og gildir það einu hvort það sé treyja eða bolur. Við erum líka með sölu á sérstökum einkennisklæðnaði fyrir sumarið sem við hlökkum til að skarta í fyrsta leik.“
Schiötharar hafa hitað upp fyrir heimaleiki KA á Backpackers undanfarin ár en í sumar verður breyting þar á. „Við höfum fengið leyfi til að gera hluta af áhaldageymslunni á Akureyrarvelli að samastað fyrir heimaleiki í sumar. Við munum hita upp fyrir alla leiki þar og bjóða þeim stuðningsmannasveitum sem ákveða að heimsækja okkur þangað.“
Sumarið 2015, fyrsta knattspyrnusumarið eftir stofnun Schiöthara, ferðaðist sveitin 6000 kílómetra til að styðja liðið. Schiötharar ætlar sér að mæta á alla leiki KA í sumar. „Stærsta markmiðið er einfalt en það er að mæta á alla leiki og styðja liðið af fullum krafti. Við vitum að þetta sumar verður erfitt og stuðningur skiptir strákanna miklu máli. Svo erum við með önnur markmið eins og að stækka kjarna sveitarinnar og fá fleiri til að breytast úr áhorfendum í stuðningsmenn. Miklu skemmtilegra að taka þátt í leiknum frá pöllunum heldur en að sitja bara og horfa.“
„Annað einfalt en mikilvægt markmið er að skemmta okkur og hafa gaman af þessu. Síðasta sumar var frekar skrítið oft á tíðum. Stemmingin fyrir íslensku deildinni var í algjöru lágmarki eftir ævintýri karlalandsliðsins í Frakklandi og fundum við vel fyrir því. Vegna þess hversu lítil stemmingin var oft á leikjum þá týndist pínu gleðin. Það ætlum við ekki að láta koma fyrir aftur. Þetta sumar verður veisla.“
Schiötharar hafa sett upp nýja heimasíðu, lififyrirka.is, þar sem m.a. er hægt að sjá texta við stuðningsmannalög og skrá sig í rútuferðir.
En hverjar eru væntingarnar til liðsins? „Mér heyrist á þeim sem ég hef talað við að við væntum þess að halda okkur uppi. Sumir ganga lengra og vilja sjá liðið keppa um Evrópusæti. Ef ég ætti að taka meðaltal af þeim spám sem ég hef heyrt þá væri það svona 7-8 sæti en það er svipað og okkur er spáð í öllum helstu fjölmiðlum. Ég held að deildin verði gífurlega jöfn í ár. Það eru nokkur lið í efri helmingnum sem bera af hvað varðar fjármagn og umgjörð en það hefur alveg sést síðustu ár allir geta unnið alla. Hjá liðunum sem spáð er neðri helmingnum fer þetta pínu eftir hversu heppin þú ert með meiðsli þar sem þau lið eiga oft það sameiginlegt að vera ekki með mjög breiðan hóp.
Sjálfur væri ég til í að sjá liðið halda sér þægilega uppi og komast langt í bikarnum.“
Skráning í rútuferð í fyrsta leik gegn Breiðablik er hafin á www.lififyrirka.is, en hvaða leik í sumar eru Schiötharar spenntastir fyrir?
„Áður en KSÍ gaf út leikskipulagið þá voru allir spenntastir fyrir útileiknum gegn ÍBV. Sá leikur er hinsvegar sá síðasti í deildinni svo spurningin hvernig þeirri ferð verður háttað ef Herjólfur er kominn á vetraráætlun. Mér heyrist að mjög margir séu spenntir fyrir þessum stærri liðum eins og FH og KR. Svo er fyrsti leikurinn á tímabilinu alltaf mjög sérstakur. En þetta verður vonandi allt saman mjög skemmtilegir leikir.“
UMMÆLI