Grenndargralið rótar í safninu og glæðir gamla hugmynd lífi á Covid-tímum. Hugmyndina um nánara samstarf við vini okkar í Murmansk má rekja til kreppuára í kjölfar efnahagshruns í upphafi aldarinnar.
–
Af hverju eflum við ekki tengslin við vini okkar í Murmansk í Rússlandi? Er Murmansk einungis vinabær Akureyrar að nafninu til? Til hvers eru vinabæir? Já ég veit, kannski er eitthvað að gerast á bak við tjöldin sem hinn venjulegi Akureyringur veit ekki um. Hafa Akureyringar hugsanlega farið í opinbera heimsókn til Murmansk og skoðað heimahöfn eina flota kjarnorkuknúinna ísbrjóta í öllum heiminum? Hafa aðilar frá sædýrasafninu í Murmansk mögulega komið til Akureyrar og miðlað af reynslu sinni? Kannski er menning okkar einfaldlega of ólík til að íbúar Akureyrar og Murmansk geti ræktað eðlilegt vináttusamband án þess að upplifa menningarsjokk. Kannski er bara betra heima setið en af stað farið.
Víst er að ekki er margt í umhverfinu sem minnir okkur á vináttutengslin við Murmansk og raunar aðra vinabæi okkar vítt og breytt um heiminn. Maður er reglulega minntur á sambandið við Randers í Danmörku með komu jólatrésins í desember og einhver samskipti hefur bærinn okkar átt við Álasund í Noregi. Í Svíþjóð er það Västerås, Narsaq í Grænlandi, Vagur í Færeyjum og Lahti í Finnlandi. Einhvern veginn finnst manni að það hljóti að vera til bókanir í fundargerðum fyrri ára um eflingu tengsla við þessa bæi. Þó ekki sé nema vegna landfræðilegra og menningarlegra tengsla landanna. En við eigum líka vinabæi sem eru lengra í burtu svo sem Gimli í Kanada og Denver í Bandaríkjunum. Og svo Murmansk.
Hvað eigum við svo að sækja til Murmansk? Getur það gagnast okkur að í Murmansk búa rúmlega 300.000 manneskjur? Já, án efa. Kemur það okkur til góða að vera vinabær borgar sem er með 86 grunnskóla og 56 framhaldsskóla? Svari hver fyrir sig. Ef við viljum efla tengslin, hvar eigum við þá að byrja? Mér skilst að í Murmansk sé öflugur bandýklúbbur. Hvað með að hefja samstarf við FC Sever Murmansk en svo heitir knattspyrnufélag borgarinnar? Liðið spilar í 2. deild í Rússlandi. Mætti ekki senda leikmenn héðan til reynslu í Murmansk og öfugt? Kaldur mottumars gæti verið góður tímapunktur til að fyrirbyggja menningarsjokk. Brettum upp ermar og sendum skeyti til Murmansk áður en motturnar hverfa og sól hækkar á lofti. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Heimild: Grenndargralið
UMMÆLI