Framsókn

Forvarnir og íþróttaiðkun unglinga

Laufey Elísa Hlynsdóttir skrifar

Laufey Elísa Hlynsdóttir er 23 ára Akureyringur sem stundar nám í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Hún skrifaði áhugaverðan pistil um íþróttaiðkun unglinga sem lesa má í heild sinni hér að neðan.


Forvarnir eru mikilvægar fyrir alla hópa en sérstaklega mikilvægar fyrir unglinga. Forvarnir eru margþætta og gerast þó svo við tökum ekki eftir því. Félagsmiðstöðvar, foreldrar, vinir og sértæk forvarnafræðsla eru hluti af forvörnum sem unglingar fá á þessum aldri.  Ísland er að standa sig vel í þessum málum að mínu mati en það er alltaf hægt að gera betur.

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á það, og við vitum það sennilega flest öll að,  íþróttaiðkun hefur gríðarlega mikið forvarnagildi, sérstaklega á unglingsaldri. Rannsóknir hafa sýnt að það er ólíklegra að þú sýnir áhættuhegðun ef þú stundar íþróttir. Krakkar með góðan vinahóp í kringum sig eru líka ólíklegri til að sýna þessa frávikshegðun en þeir sem hafa ekki þennan hóp.  Ég þekki það nú bara sjálf hversu mikilvægt er að hafa góðan vinahóp í kringum sig sem maður getur treyst á. Að tilheyra íþróttaliði er eitthvað sem hefur haft mikil og góð áhrif á mitt líf. Að vera hluti af hóp hefur mikil uppeldisleg áhrif líka, samvinna og að vera til staðar fyrir liðsfélagana ásamt fleirum kostum. Að þessu sögðu sjáum við öll afhverju það skiptir máli að halda unglingum sem lengst í sínum tómstundum.

Það að tilheyra hópi, eða liði er eitthvað sem skiptir miklu máli á þessum aldri, og líka bara í gegnum allt lífið. Félagsskapurinn er það sem flestir sækjast eftir, og ekki má gleyma að íþróttaiðkun er bara svo skemmtileg og góð fyrir líkamlega og andlega heilsu unglinganna. Íþróttaiðkun hefur mikil áhrif á sjálfsmynd, líkamsímynd og líðan unglinga. Allir þessir þættir geta spornað gegn því að unglingur sýni frávikshegðun. Íþróttafélög eiga að reyna að hjálpa iðkendum við að stunda sína íþrótt, hvort sem þeir vilja verða afreksmenn eða vilja bara vera með vegna félagsskaparins.

Brottfall í íþróttum er sennilega hæst á unglingsárum. Mikið hefur verið í umræðunni hversu þétt dagskráin sé hjá unglingunum. Eru unglingarnir ekki bara með of mikið á sinni könnu? Núna var framhaldsskólinn styttur í þrjú ár. Skóli til fimm á daginn, heimavinna og verkefnavinna og aðrar tómstundir sem unglingar stunda. Stóra spurningin er sú, hvað getum við gert til að hjálpa unglingum við það að haldast sem lengst í sinni íþróttaiðkun?

Ég er ekki með nákvæmt svar við þessari spurningu en ég tel nauðynlegt að til þess að unglingarnir fái rými til þess að stunda sínar tómstundir, að íþróttafélögin og skólastarf taki höndum saman og vinni í því saman. Ég var svo heppin að fá að stunda mína íþrótt meðfram grunnskóla og framhaldsskóla og fékk gott rými til þess. Æfingar voru stundum inn í stundatöflu og hjálpaði það mikið. Ég tek það ekki af skólunum sem reyna að gera sitt besta og eru að reyna að létta til hjá unglingunum en ég tel að skólar verði að sýna tillitsemi þegar kemur að íþróttaiðkun, sérstaklega núna í þriggja ára framhaldsskólanámi.
Það eru forréttindi að geta stundað sínar tómstundir og við megum við ekki gleyma að aðstoða börn og unglinga að haldast í þeim sem lengst.

Laufey Elísa Hlynsdóttir
Íþróttakona og nemi í Tómstunda – og félagsmálafræði við Háskóla Íslands

Greinin birtist fyrst á Frítíminn.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó